„Fólk er hrætt“

Lilja Tekla Jóhannsdóttir.
Lilja Tekla Jóhannsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Fólk er hrætt og órólegt yfir þessu öllu saman. Margir á rýmdu svæðunum eru að velta því fyrir sér hvort þeir eigi að yfirgefa bæinn eða vera áfram hjá ættingjum og vinum. Svo kemur þetta líka illa við þá sem eru á rýmdum svæðum og upplifðu flóðið 1974. Ekki má gleyma börnunum. Ég á tvö lítil börn og sá sem er 4 ára er alltaf að spyrja hvort það sé í lagi með fólkið í bænum,“ segir Lilja Tekla Jóhannsdóttir, íbúi i Neskaupstað um upplifun sína af snjóflóðahættunni. 

Þeir sem blaðamaður hefur rætt við segja margir upplifa óraunveruleika tilfinningu yfir þessu öllu saman. Það sé skrítið að búa í bæ sem sé á yfirlýstu hættustigi. Margir geta ekki farið heim vegna rýminga og sumir óttast um húsin sín.

Vitum ekki næstu skref  

„Við fengum bara inn hjá ættingjum og höfum verið í góðu yfirlæti þar og vorum að fá húsnæði í bænum. Svo vitum við ekki næstu skref,“ Unnur Ósk Sigfinnsdóttir, íbúi í Gauksmýri sem er innan rýmds svæðis 

Katrín Embla 12 ára og Ísabella Líf  sem er átta, alveg að verða 9 ára, eru dætur Unnar. Þeim finnst þetta ástand frekar „skrítið.“ 

„Við erum búnar að vera smá hræddar. Við þurftum fyrst að fara neðarlega í húsið,“ segir Katrín. „Já sunnarlega,“ bætti Ísabella Líf við. Var þeim svo bjargað af björgunarsveitarfólki. 

Katrín Embla og Ísabella Líf Sigurðsdætur.
Katrín Embla og Ísabella Líf Sigurðsdætur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Aldrei gerst gerst á meðan ég hef verið á lífi

Þeir Sverrir Björn Einarsson og Logi Már Kvaran voru á ferð ásamt börnum sínum að þiggja veitingar á Hótel Hildibrand þar sem bæjarbúar geta þegið mat í hádeginu á meðan hættustigið er til staðar. Báðir búa þeir á rýmdu svæði. 

Þeir voru sammála um að ástandið væri „súrealískt.“ 

„Okkur líður eins og þetta sé ekki alveg raunverulegt. Við erum nýlega aðflutt og erum að upplifa hræðslu við náttúruöfl í fyrsta skipti,“ segir Logi Már. 

„Maður er dreginn snemma á fætur og björgunarsveitin segir manni að fara þá hefur maður eðlilega lítinn tíma til að átta sig á hlutunum. En okkar samverustaður í Egilsbúð (fjöldahjálparstöðinni) gefur mikið og við upplifum mikinn stuðning og samheldni. Eins finnur maður fyrir öryggi því það er haldið vel utan um þetta. Maður er jafnvel í smá rútínu í þessu óvenjulega ástandi,“ segir Sverrir. 

Dagur Ágúst Kvaran sonur Loga segir að honum finnist þetta frekar skrítið allt saman. „Þetta hefur aldrei gerst á meðan ég hef verið á lífi sko,“ segir Dagur sem er 12 ára. 

Dagur Ágúst Kvaran, Logi Már Kvaran, Steingrímur Ýmir Kvaran, Sverrir …
Dagur Ágúst Kvaran, Logi Már Kvaran, Steingrímur Ýmir Kvaran, Sverrir Björn Einarsson, Alexander Máni Sverrisson og Þorsteinn Mikael Hjaltason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Finnst þetta alveg ágætt

„Mér finnst þetta alveg ágætt. En stundum langar manni að gista heima hjá sér. Þetta er í fyrsta sinn sem ég hef lent í þessu. Mér finnst þetta svolítið skrítið en ég er ekkert hrædd. Mér finnst í raun ógeðslega gaman að hafa einhvern hjá sér (björgunarsveitarmann) þegar maður þarf að fara heim og ná í eitthvað,“ segir hin þrettán ára Maryam Iuay Georgi.   

Maryam Iuay Georgi ásamt systur sinni.
Maryam Iuay Georgi ásamt systur sinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert