Margir erlendir ferðamenn ráku upp stór augu í gær þegar Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reid forsetafrú sáust spóka sig um í Vík í Mýrdal.
Gaf forsetinn sig á tal við nokkra þeirra en forsetahjónin eru þar stödd í opinberri heimsókn sem hófst í gær.
Hjónin hafa hlotið góðar móttökur í Vík þar sem þau hafa rætt við íbúa á öllum aldri. Förinni í gærmorgun var fyrst heitið á hjúkrunar- og dvalarheimilið Hjallatún en þar á eftir heimsóttu forsetahjónin meðal annars grunnskóla bæjarins, Víkurkirkju og heilsugæsluna. Þá gæddu þau sér á veitingum í veitingavagninum Skool beans og fengu sér bjór á brugghúsinu Smiðjunni.
Forsetahjónin áttu einnig fund með sveitarstjórn og enskumælandi ráði sem skipað er fulltrúum erlendra íbúa Mýrdalshrepps í gær.