„Við fundum parta úr bílunum inni í húsi,“ segir einn björgunarsveitarmaðurinn sem staddur er við Starmýri 17-19 á Neskaupstað þar sem björgunarsveitarfólk og smiðir eru staddir til að negla fyrir glugga til að bjarga verðmætum.
Um er að ræða rýmt svæði og þangað fer enginn inn nema vera með snjóflóðaýla á sér.
Gefur þetta til kynna þann ógnarkraft sem fylgt hefur flóðinu. Bílar liggja hvarvetna eins og hráviði á meðan aðrir eru á kafi undir snjó. Þá má sjá að tré í hlíðinni eru brotin í beinni línu sem skilgreinir farveg flóðsins.
„Við áttum að bjarga einhverjum munum. Myndum og eitthvað svoleiðis,“ segir annar áður en þeir eru roknir inn í hús sem uppfull eru af snjó eftir snjóflóðin á mánudagsmorgun.
Samkvæmt upplýsingum frá aðgerðastjórn verða þetta einu aðgerðirnar sem gripið verður til í dag. Segja má að nú sé eins konar biðstaða hjá viðbragðsaðilum. Lognið á undan storminum en veðurspá er slæm og mikilli úrkomu spáð næstu daga.