„Grafalvarlegt brot gegn þinginu“

Þing­flokks­for­menn fjög­urra stjórn­ar­and­stöðuflokka hafa lagt fram van­traust­stil­lögu á Jón Gunn­ars­son …
Þing­flokks­for­menn fjög­urra stjórn­ar­and­stöðuflokka hafa lagt fram van­traust­stil­lögu á Jón Gunn­ars­son dóms­málaráðherra. Samsett mynd

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, var ómyrk í máli þegar að hún greindi frá því í ræðustól á Alþingi að þingflokksformenn Pírata, Samfylkingarinnar, Flokks fólksins og Viðreisnar hefðu lagt fram vantrauststillögu á hendur Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra.

Telja flokk­arn­ir að Jón hafi brotið lög þegar hann breytti því hvernig um­sókn­ir um rík­is­borg­ara­rétt eru af­greidd­ar hjá Útlend­inga­stofn­un.

Að sögn Þórhildar Sunnu er brotið grafalvarlegt og setur það hættulegt fordæmi ef þingið lætur það „yfir sig ganga“.

Jón telur sig ekki hafa brotið lög en í samtali við mbl.is fyrr í dag, sagði hann alrangt að hann hefði haldið upplýsingum frá Alþingi.

Hættulegt fordæmi

„Dómsmálaráðherra Íslands, Jón Gunnarsson, braut gegn þingsköpum þegar að hann bannaði Útlendingastofnun að afhenda þinginu þau gögn sem að þingið óskaði eftir á grundvelli 51. greinar þingskaparlaga,“ sagði Þórhildur Sunna og tók fram að með þessu athæfi hafi hann brotið gegn einni af grunnstoðum þingræðisins á Íslandi, upplýsingarétti Alþingis.

„Það er grafalvarlegt brot gegn þinginu. Brot sem að þingið má ekki láta yfir sig ganga eins og ekkert hafi gerst. Réttur þingsins til að kalla eftir þeim upplýsingum sem það þarf til þess að sinna störfum sínum er bundinn í stjórnarskrá, hann er víðtækur og gríðarlega mikilvægur. Við erum lýðveldi með þingbundinni stjórn og það má ekki leyfa ráðherranum að taka sér það vald að velja hvaða upplýsingar honum finnist að þingið eigi rétt á að fá og hverjar ekki.

Ef við samþykkjum það einu sinni erum við að setja fordæmi sem er ekki bara hættulegt heldur beinlínis andstætt stjórnskipun lýðveldisins Íslands,“ sagði Þórhildur og bætir við að vantrauststillagan hafi verið lögð fram til að standa vörð um stjórnskipan Íslands.

Snýst ekki um Útlendingastofnun

„Um það snýst þessi tillaga og ekkert annað. Hún snýst ekki um veitingu ríkisborgararéttar. Hún snýst ekki um Útlendingastofnun. Hún snýst ekki um útlendinga, hvað sem hver segir. Og allra síst snýst hún um dylgjur dómsmálaráðherra í garð þingmanna allsherjar- og menntamálanefndar sem er ein ógeðfelldasta afvegaleiðing sem ég hef orðið vitni að. Þessi tillaga snýst um það að ráðherra sem að brýtur jafn freklega gegn upplýsingarétti almennings getur ekki má ekki og á ekki að njóta trausts.“

„Heyr, heyr,“ mátti heyra í salnum þegar Þórhildur lauk ræðunni sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka