Þingflokksformenn fjögurra stjórnarandstöðuflokka hyggjast leggja fram vantrauststillögu á Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra í dag. Að baki tillögunnar standa Viðreisn, Samfylking, Píratar og Flokkur fólksins.
Telja flokkarnir að Jón hafi brotið lög þegar hann breytti því hvernig umsóknir um ríkisborgararétt eru afgreiddar hjá Útlendingastofnun.
Þingmenn flokkanna munu gera nánar grein fyrir afstöðu sinni á þingi í dag undir liðnum störf þingsins. Þingfundur hefst núna klukkan 15.
Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, ræddi við mbl.is fyrr í morgun og sagði það skýrt að Jón hafi brotið lög.
„Hann fyrirskipar það að það eigi ekki afhenda þinginu þessi gögn nema í þessari réttu tímaröð og þá fær þingið ekki gögnin samkvæmt þeim tímaramma sem kveðið er á um í þingskaparlögum. Þingið vildi fá þessi gögn innan þessa frests, hann sagði nei og þar er hann brotlegur,“ sagði Sigmar.
Jón sagðist ósammála því að hann hafi brotið lög með fyrirskipan sinni og segir að þarna stangist á sjónarmið. Telur hann það vera í höndum þingsins að koma sér saman um hvernig best sé að vinna umsóknirnar.