Lögðu ríkissjóð undir og kalla nú á atvinnulífið

Fjármálaáætlun kynnt í fjármálaráðuneytinu í dag. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Sigurður …
Fjármálaáætlun kynnt í fjármálaráðuneytinu í dag. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér finnst þetta senda skýr skilaboð inn í núverandi efnahagsástand,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um nýja fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var fyrr í dag. Þar var meðal annars greint frá aðhaldi og hagræðingu í ríkisrekstri, skattahækkunum og nýjum sköttum m.a. á skemmtiferðaskip og í tengslum við breytingu á sköttum og gjöldum á bifreiðar og umferð.

„Það er verið að taka í raun og veru þríþættar ákvarðanir. Afla meiri tekna, við boðum aukið aðhald í ríkisrekstrinum og frestum fjárfestingu, en þó ekki öllum,“ segir Katrín, en á fundinum kom fram að engin aðhaldskrafa yrði á almannatryggingakerfið, heilbrigðiskerfið og á löggæslu. Þá kom fram að áfram verði haldið með byggingu nýs Landspítala á áður áformuðum hraða. „Við höldum áfram ótrauð með Landspítala, höldum áfram uppbyggingu á húsnæðismarkaði og í samgöngumáli, en öðru er skotið á frest,“ segir Katrín við mbl.is eftir fundinn.

„Ég ætla að treysta fyrirtækjunum í landinu“

Hún segir áherslurnar sem komi fram í fjármálaáætluninni vera að staðinn verði vörður um grunnþjónustu, en að svo verði hækkanir á sköttum, meðal annars tímabundin hækkun á tekjuskatti fyrirtækja á næsta ári. Segir hún nú komið að því að fyrirtækin endurgjaldi stuðning ríkisins í faraldrinum. „Við lögðum ríkissjóð undir til að styðja við atvinnulíf og almenning í landinu og í raun og veru erum við að kalla á atvinnulífið til baka að styðja okkur í gegnum þessa verðbólgutíma. En það er tímabundin aðgerð,“ segir hún.

Á kynningarfundinum með fjármálaáætluninni talaði Katrín um þjóðarsátt sem þyrfti að nást til að sporna gegn verðbólgunni. Spurð hvort hún hafi áhyggjur af því að fyrirtæki setji auknar skattaálögur beint út í verðlagið í stað þess að taka þátt í þeirri þjóðarsátt sem hún talar fyrir segir Katrín að hún hafi trú á fyrirtækjum landsins. „Ég ætla að treysta fyrirtækjunum í landinu. Þetta er tímabundin ráðstöfun og við erum líka að boða aukna skattheimtu á almenning í gegnum umferðagjöld og það er skattheimta sem leggst á alla sem keyra ökutæki. Við erum að reyna að ná sem réttlátastri tekjuöflun,“ segir hún.

Fyrir nokkru var kynnt að ríkið myndi setja á fót verðlagseftirlit sem væri á hendi menningar- og viðskiptaráðherra, svokölluð matvörugátt. Katrín segir að mikil vinna hafi farið í þetta núna í mars og að gáttin verði tilbúin á næstu vikum. Segist hún fagna auknu gegnsæi með verðlagi, en sjálf segist hún þó helst vilja draga fram þau fyrirtæki sem hafi brugðist við verðbólgunni með að lækka verð. „Mín reynsla af íslensku atvinnulífi er að það rís undir þeirri ábyrgð sem á það er lagt og ég held að það muni gera það í þessu tilfelli líka.“

„Teljum að þessi grein geti skilað meiru til þjóðarbúsins“

Fjármálaáætlunin nær til áranna 2024-2028 og segir Katrín að þar sé horf til þess að hækka veiðigjöld á útgerðir í stigvaxandi mæli. Fyrst um tvo milljarða, svo um þrjá milljarða og að lokum um fjóra milljarða árlega. „Við teljum að þessi grein geti skilað meiru til þjóðarbúsins,“ segir Katrín.

Hún segir nýtt gjald á skemmtiferðaskip í raun vera einskonar gistináttaskatt á farþega slíkra skipa, en um leið umhverfisskattur. „Svo höfum við boðað að gistináttagjaldið verði aftur tekið upp sem var fellt niður tímabundið vegna heimsfaraldurs.“ Katrín segir nýja gjaldið á skemmtiferðaskipin eiga að skila um 700-800 milljónum árlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka