„Ná til baka þeim tekjum sem við sáum eftir“

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að í fjármálaáætun þeirri sem kynnt verður í dag verði áherslubreytingar frá því að síðasta áætlun var kynnt.

Hann segir stjórnvöld taka mið af breyttum ytri aðstæðum og segir að áherslumál frá ríkisstjórninni þurfi að taka mið af þessum aðstæðum og vísar þar ekki síst til verðbólgunnar.

Bjarni segir fjármálaáætlunina verða mikilvægt innlegg inn í þessa stöðu og segist ánægður með að heilt yfir getum við haft mjög mikla trú á framtíðinni. Hann segir það geta verið bjart framundan áfram á Íslandi.

Endurheimta tekjur af umferð og eldsneyti

Stjórnvöld hafa lengi boðað að það verði að eiga sér stað breytingar á því sem snýr að sköttum á umferð og samgöngur í landinu, að sögn Bjarna.

„Ef menn lesa eldri áætlanir þá höfum við verið að gera ráð fyrir því að við myndum endurheimta þær tekjur sem umferð og eldsneyti skilað hér áður fyrr.

Ég lít þannig á að við séum að draga úr ívilnunum og að við séum að ná til baka þeim tekjum sem við sáum eftir til þess að ná fram breytingu í neysluhegðun. Breytingu sem birtist okkur í rafmagnsbílum og í því að fólk hefur keypt í stórauknu mæli sparneytnari bíla.

Við höfum gengið svo langt að leyfa ökutækjum sem eru knúin hreinorku; það er rafmagnsbílar, vetnisbílar og metanbílar eftir atvikum, hafa ekki verið að taka þátt í að greiða fyrir notkun á vegakerfinu. Ég held að það hafi verið réttlætanlegt í ákveðinn tíma en við þurfum að gæta að sjálfbærni kerfisins.“

Tekjur hafa hrapað

Þannig segir Bjarni hafa náðst fram mjög jákvæð breyting. Þá segir hann tímann hafa unnið með okkur og að framleiðendur séu sjálfir farnir að leggja miklu meiri áherslu á þessa þætti og þannig sé kostnaðarverð framleiddra ökutækja að lækka.

„Eins og ég hef sýnt töflur um, meðal annars í fjármálaáætlun á sínum tíma, um hversu mikið tekjur ríkisins hafa hrapað, bæði meðaltekjur á ökutæki vegna eldsneytis og meðal vörugjald vegna innfluttrar bifreiðar. Þær hafa hrapað gríðarlega mikið.“

Hann segir ljóst að eitthvað annað þurfi að koma til ef við ætlum að sætta okkur við þetta mikla tekjutap.

„Þannig að ég nefni þetta fyrst og fremst sem eina að stærri kerfisbreytingum sem við munum eiga von á á næstu árum. Það verða áfangar teknir í þeim efnum núna um næstu áramót,“ segir hann og heldur áfram,

„Síðan erum við að ræða frekar um tekjuhlið ríkisfjármálanna,“ segir Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka