Skynja að „menn séu komnir með nóg“

Aðeins er hægt að manna tvær þyrlur Gæslunnar 70 prósent …
Aðeins er hægt að manna tvær þyrlur Gæslunnar 70 prósent af árinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það sem við stjórnendur skynjum er að menn séu komnir með nóg og séu tregari í taumi en áður. Við höfum alltaf getað treyst á að menn stökkvi til en það er erfiðara í dag út af þessari stöðu. Engu að síður ef mikið liggur við, þá trúum við að þá komi menn,“ segir Auðunn F. Kristinsson, framkvæmdastjóri aðgerðarsviðs Landhelgisgæslunnar, í samtali við mbl.is.

Atvinnuflugmenn hafa verið kjarasamningslausir í á fjórða ár og vegna kjaradeilu félags íslenskra atvinnuflugmanna og íslenska ríkisins er nú orðið erfiðara að fá flugmenn á frívöktum til að sinna útköllum, líkt og mbl.is greindi frá í gær.

Auðunn segir að auðvitað sé það þreytandi til lengdar að vera án kjarasamnings og menn séu minna stemmdir fyrir vinnunni vegna þessa.

Aðeins full starfsemi 70 prósent af árinu

Vandamálið er hins vegar ekki tregða starfsmanna til að vinna á frídögunum sínum, heldur skortur á fjármagni til að hægt sé að halda úti sjö þyrluáhöfnum en ekki bara sex, eins og staðan er í dag. Fyrir vikið tekst aðeins að manna eina þyrlu um 30 prósent af árinu í stað tveggja eins og nauðsynlegt er til að halda úti 100 prósent starfsemi, og ítrekað þarf að stóla á  flugmenn á frívakt sinni útköllum. 

Þegar það gengur ekki getur komið upp sú staða að þyrla sé ekki til taks, líkt og gerðist í gær þegar óskað var eftir aðstoð hennar vegna rútulyss í Öræfum.

Flug­menn á frívakt feng­ust ekki til að hlaupa í skarðið þegar senda þurfti áhöfn í hvíld, líkt og flu­gör­ygg­is­regl­ur kveða á um. Því þurfti að flytja þrjá slasaða farþega með sjúkrabílum til Hafnar í Hornafirði og þaðan með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Fólkið var ekki með lífshættulega áverka og einungis var óskað eftir aðstoð þyrlunnar vegna langra flutningsvegalengda.

450 milljónir vantar upp á

Auðunn telur þó að hefði alvarleikinn verið meiri hefðu menn stokkið úr fríi þegar útkallið kom.Í þessu tilfelli hafi hins vegar verið hægt að leysa málið með öðrum leiðum.

„Ég trúi því ef þetta væri eitthvað á sjó og virkilega alvarlegt þá myndi málið leysast.“

Aðspurður hvort það sé ekki óeðlilegt ítrekað þurfi að kalla fólk úr fríi til að sinna útköllum, svarar hann því játandi.

„Í raun og veru vantar okkur sjöundu þyrluáhöfnina. Við erum með sex áhafnir í dag og það þýðir að þegar við erum búin botnnýta þær samkvæmt kjarasamningum, þá náum við ekki að fylla upp í allt árið. Okkur vantar 30 prósent af árinu til að vera með tvær vélar. Við erum alltaf með eina vél, eina áhöfn klára, nema menn springi á hvíldartímareglum. Til að vera öryggir með tvær áhafnir allt árið þá þurfum við sjöundu áhöfnina,“ segir Auðunn.

„Við erum búnir að margóska eftir því við stjórnvöld að hún verði fjármögnuð en höfum ekki fengið það í gegn ennþá. Á meðan svo er þá er þetta það sem við getum boðið upp á. Boltinn liggur hjá stjórnvöldum,“ bætir hann við, en um 450 milljónir vantar upp á til að hægt sé að halda úti sjöundu áhöfninni. Þá vantar einnig aukna fjármuni í viðhaldsdeildina.

„Okkur vantar um 100 milljónir til að fullmanna skýlið, þannig þetta eru 500 til 600 sem okkur vantar til að geta gert þennan þyrlurekstur góðan.“

Auðunn vill þó trúa því að verið sé vinna í málinu, þar sem verið sé að ræða fjármálaáætlun næstu fimm ára.

Geta ekki sinnt sjófarendum sem skyldi

Ef alvarlegt atvik kemur upp á sjó, sem krefst aðkomu þyrlunnar, gæti komið upp sú staða að ekki sé hægt að manna áhöfn. Auðunn segir að þá verði að grípa til annarra leiða.

„Þá höfum við aðrar einingar, varðskipin okkar, nærstödd skip og skip slysavarnafélags Landsbjargar, en það er miklu seinvirkari aðferð. Þyrlurnar eru bestu tækin í þetta.“

Það sem er ekki síður alvarlegt, er að um 30 prósent tímans er ekki hægt að sinna sjófarendum fyrir utan 20 sjómílur frá strönd.

„Ástæða þess að við viljum vera með tvær vélar til taks hverju sinni er til að geta farið út fyrir 20 sjómílur frá strönd. Þá þurfum við að hafa tvær vélar og tvær áhafnir. Á meðan við erum bara með eina áhöfn 30 prósent af árinu þá getum við ekki sinnt sjófarendum fyrir utan 20 sjómílur frá strönd, sem eru sirka 35 kílómetrar. Það er í okkar huga alvarlegasti hlutinn af þessu,“ segir Auðunn.

„Nema menn hlaupi til úr fríum sem er ekki eðlilegt ástand,“ bætir hann við.

 Líkt og áður sagði hefur það hefur það verið erfiðara undanfarið vegna kjaradeilunnar.

„Þegar menn eru búnir að vera samningslausir lengi þá auðvitað verða menn þreyttir og ekki eins stemmdir fyrir vinnunni. Það drepur niður starfsandann þegar ekki er samið við menn, eða ekki nást samningar,“ segir Auðunn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert