Markmið nýs frumvarps heilbrigðisráðherra til breytinga á lögum um heilbrigðisstarfsmenn er að skýra heimildir heilbrigðisstarfsfólks til að tilkynna lögreglu um heimilisofbeldi ef þolandi þess leitar á heilbrigðisstofnun.
Áskilið er að slík tilkynning sé gerð í samráði við þolanda, að því er kemur fram í tilkynningu.
Árið 2022 voru tæplega 1.100 heimilisofbeldismál tilkynnt lögreglu. Um 63% þeirra voru ofbeldi af hendi maka eða fyrrverandi maka. Tæplega 80% gerenda voru karlar en 67% þolenda konur og er sú staðreynd ein meginástæða þess að heimilisofbeldi er skilgreint sem kynbundið ofbeldi.
Samkvæmt skrám Landspítala hafði lögregla aðkomu að einungis 12% mála þeirra kvenna sem lagðar voru inn á Landspítala í kjölfar heimilisofbeldis á árunum 2005-2019.
Af þeim 1.636 konum sem leituðu á bráðamóttöku Landspítala vegna heimilisofbeldis á 15 ára tímabili höfðu 38% þeirra komið á spítalann áður á tímabilinu af sömu sökum.
„Tölfræðin sýnir að þrátt fyrir alvarleika heimilisofbeldis, þar sem þolendur þurfa að leita á heilbrigðisstofnun vegna þess, eru hlutfallslega fá mál tilkynnt lögreglu. Mögulega er ástæðan sú að heilbrigðisstarfsfólk telji undanþáguákvæði frá þagnarskyldu í gildandi lögum ekki nógu skýrt,“ segir í tilkynningunni.
„Með áformaðri lagabreytingu er því sérstaklega kveðið á um heimild heilbrigðisstarfsmanns, að höfðu samráði við þolandann, til að tilkynna lögreglu heimilisofbeldi eða ofbeldi í nánu sambandi sem ógnað getur lífi eða heilsu sjúklings.“
Unnið er að innleiðingu samræmds verklags í heilbrigðisþjónustu við móttöku þolenda heimilisofbeldis. Verklagið verður tekið upp næsta haust og innleitt á öllum heilbrigðisstofnunum hér á landi.