Þingmaður Samfylkingar segir ríkisstjórnina hafa sofið á verðinum. Ný fjármálaáætlun geri ekkert til þess að taka á verðbólgunni strax eða verja heimilisbókhald almennings. Áætlunin sé einnig full af endurteknu efni sem hafi ekki dugað til.
„Ef við skoðum aðeins við hvaða aðstæður þessi fjármálaáætlun er lögð fram þá er alveg ljóst að ríkisstjórnin hefur sofið á verðinum bæði þegar kemur að því að taka á verðbólgunni sjálfri, vinna gegn þenslu og því að verja lágtekju- og millitekjufólk fyrir verðbólgu og vaxtahækkunum,“ segir Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar og meðlimur fjárlaganefndar.
Þá hafi hann haldið að í nýrri fjármálaáætlun yrði einhver afgerandi breyting á hvað varðar aðgerðir gegn verðbólgu. Það hafi verið tónninn sem að ráðherrar hefðu gefið síðastliðnar vikur.
Eins segist hann sakna framtíðarsýnar þegar komi að heilbrigðis- og velferðarmálum í landinu. Ákveðin stöðnun sé í raun og veru boðuð. Það sé ákveðin lenska hjá ríkisstjórninni að setja peninga í starfshópa og skipulagsvinnu en vanfjármagna nauðsynlega þjónustu sem almenningur þurfi á að halda eins og heilbrigðisþjónustu.
Þörf sé á aðgerðum strax til þess að taka á verðbólgunni og verja fólk fyrir henni.
„En gott og vel, þau eru kannski aðeins að ná því að það þarf að herða á aðhaldsstiginu en það kemur þá ekki fyrr en á næsta og þarnæsta ári. Vandinn þar er að aðhaldið sem er boðað er á algjörlega röngum stað. Það verður tveggja prósenta aðhaldskrafa í langflestum málaflokkum þannig það er verið að setja almannaþjónustuna í spennitreyju næstu árin,“ segir Jóhann Páll.
Þá sé verið að boða áframhaldandi ofsahækkun á krónutölugjöldum, sköttum sem að leggist þyngst á tekjulægsta fólk landsins.
„Við í Samfylkingunni hefðum kosið að það yrði farin allt, allt önnur leið út úr þessari dýrtíð og við höfum kallað eftir aðhaldi í þágu almennings en ekki aðhaldi gegn almenningi eins og birtist í þessari áætlun,“ segir Jóhann Páll.
Hann hafi einnig miklar áhyggjur af skorti á framtíðarsýn í húsnæðismálum. Nýbúið sé að undirrita rammasamkomulag sem að geri ráð fyrir uppbyggingu 1200 hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði á hverju ári næstu fimm árin.
„Maður hefði gert ráð fyrir því að til þess að uppfylla og til þess að byggja undir þetta rammasamkomulag þyrfti að gera ráð fyrir átta hundruð eða þúsund almennum íbúðum á ári næstu fimm árin en svo er aldeilis ekki. Það eru settir 3,7 milljarðar í þetta sem duga ekki fyrir nema broti af þessum íbúðum,“ segir Jóhann Páll.
Spurður hvað Samfylkingin hefði frekar viljað sjá í fjármálaáætluninni nefnir Jóhann tekjuöflun til þess að sporna gegn þenslu. Sumt af því sé hægt að gera fyrr en það sem komi fram í núverandi áætlun.
Nauðsynlegt sé einnig að taka í gegn húsnæðisstuðningskerfið, verja leigjendur og hemilisbókhald almennings.
„Verja til dæmis fólk sem tók óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum og er búið að sjá greiðslubyrðina jafnvel tvöfaldast á tveimur árum. Það væri hægt að gera strax með því að hækka hámark vaxtabóta. Það þarf að verja leigjendur með leigubremsu og með því að tryggja að húsnæðisbætur hækki og beinist raunverulega til þeirra sem þurfi á þeim að halda frekar en að renna með óbeinum hætti til okurfyrirtækja á leigumarkaði. Það er það sem okkur þykir einna brýnast núna, að verja heimilisbókhaldið hjá fólki sem að finnum svo sárlega fyrir þessari miklu verðbólgu og vaxtahækkunum,“ segir Jóhann Páll.
Mikilvægt sé að átta sig á því að mikið af aðgerðunum sem boðaðar séu í nýrri fjármálaáætlunum séu endurtekið efni úr síðustu fjármálaáætlun sem sé verið að setja í nýjan búning.
„Aðgerðir sem voru boðaðar þá sem einhverskonar úrræði til þess að sporna gegn þenslu en einmitt hafa ekki dugað til þess að slá á verðbólguvæntingar,“ segir Jóhann Páll að lokum.