Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar, telur Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hafa brotið lög þegar hann, breytti því hvernig umsóknir um ríkisborgararétt eru afgreiddar hjá Útlendingastofnun. Jón telur sig ekki hafa brotið lög, og telur að þarna stangist á sjónarmið.
Breytingin fól í sér að afgreiðsla umsókna um ríkisborgararétt, sem fara fyrir allsherjar- og menntamálanefnd og eru háðar eru samþykki Alþingis, voru ekki lengur í forgangi hjá Útlendingastofnun.
„Hann fyrirskipar það að það eigi ekki afhenda þinginu þessi gögn nema í þessari réttu tímaröð og þá fær þingið ekki gögnin samkvæmt þeim tímaramma sem kveðið er á um í þingskaparlögum. Þingið vildi fá þessi gögn innan þessa frests, hann sagði nei og þar er hann brotlegur,“ segir Sigmar í samtali við mbl.is.
Nefndin óskaði eftir lögfræðiáliti frá skrifstofu Alþingis en Sigmar segir að nefndin hafi þrisvar sinnum óskað eftir umræddum gögnum frá Útlendingastofnun svo hægt væri að afgreiða umsóknirnar innan þess tímafrests sem þingskaparlög kveða á um.
Sigmar telur að Jón þurfi að íhuga stöðu sína alvarlega. „Ég get ekki séð hvernig ráðherra getur setið áfram eftir að hafa hindrað Alþingi í vinnu sinni við að setja lög í landinu. Ég á erfitt með að sjá að það geti verið hin eðlilega niðurstaða,“ segir Sigmar.
„Það er alrangt að við höfum haldið upplýsingum frá Alþingi,“ segir Jón í samtali við mbl.is, spurður út í fullyrðingar Sigmars.
Í minnisblaði skrifstofu Alþingis segir að lögin bindi ekki hendur Alþingis heldur stjórnvalda. Þó ákvæði 51. gr. þingskapa hafi ekki verið hugsað til að nota í málum sem varða veitingu ríkisborgararéttar felur ákvæðið í sér þá meginreglu að Alþingi eigi aðgang að upplýsingum frá stjórnvöldum sem eru nauðsynlegar til að þingið eti gegnt hlutverki sínu.
„Til þess að Alþingi geti afgreitt umsóknir um ríkisborgararétt með viðunandi hætti þarf það að fá þau gögn sem máli skipta. Fáist þau gögn ekki afhent með þeim hætti sem Alþingi óskar eftir getur það í ljósi þess að þingið fer með forræði á málaflokknum beitt 1. mgr. 51. gr. þingskapa til að skylda stjórnvöld til að verða við beiðnum Alþingis innan tiltekins frests,“ segir í minnisblaðinu.
Dómsmálaráðherra breytti því hvernig umsóknir eru afgreiddar innan Útlendingastofnunar árið 2021. Áður voru umsóknir sem fara þurfa fyrir þingið í forgangi hjá stofnuninni. Jón segir að ákvörðun um breytingu á forgangsröðun hafi verið tekin eftir að umboðsmaður Alþingis gerði athugasemd um hversu langur málsmeðferðartíminn var orðinn hjá stofnuninni.
„Þetta gerðist af því það var alltaf verið að taka þessar umsóknir fram fyrir röðina. Aðrir lentu aftar í röðinni og því var málsmeðferðartíminn orðinn of langur,“ segir Jón. Hann segir að á síðustu árum hafi umsóknum fjölgað mikið og þær umsóknir sem fara áttu fyrir þingið komnar á annað hundrað.
„Það var því tekin sú ákvörðun að við gætum ekki lengur unnið þessar umsóknir í forgangi og að allar umsóknir skyldu unnar í þeirri röð sem þær berast,“ segir Jón. Hann segir stofnunina ekki getað mismunað fólki á þessum grundvelli.
Jón segir að nú sé það í höndum þingsins að koma sér saman um hvernig best sé að vinna þessar umsóknir og hvernig þingskaparlögum skuli háttað.
„Við þurfum að ræða hvernig við getum komið upp skilvirkara vinnulagi og ég vonast til að menn nái saman um það,“ segir Jón
Sigmar telur skýrt í minnisblaðinu að þú hafir brotið lög með því að breyta því hvernig umsóknir eru afgreiddar hjá stofnuninni. Ertu sammála því?
„Nei við erum ekki sammála því. Þarna stangast á sjónarmið,“ segir Jón.