„Við höldum áfram ótrauð með Landspítala, höldum áfram uppbyggingu á húsnæðismarkaði og í samgöngumálum, en öðru er skotið á frest,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um nýja fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2024-2028 sem kynnt var í gær.
Þar er boðað aðhald og hagræðing í ríkisrekstri, tímabundinn viðbótartekjuskattur á fyrirtæki í eitt ár og frestun framkvæmda sem ekki eru hafnar.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði að afkoma ríkissjóðs hefði verið að batna. „Fjárlög gerðu ráð fyrir 50 milljarða halla en nú sjáum við fram á að frumjöfnuður á árinu fari upp í um 20 milljarða afgang sem er verulegur afkomubati,“ sagði Bjarni.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði að aðgerðirnar dugi skammt við núverandi vanda.
„Hin lausnin á vandanum sem teflt er fram eru síðan að okkar mati lítt ígrundaðar og illa tímasettar skattahækkanir á borð við hækkun tekjuskatts fyrirtækja, auk annarra þátta svo sem lækkun á endurgreiðslu vegna framkvæmda við byggingar, breytinga á gjaldtöku í ferðaþjónustu og óútfærða breytingu á veiði- og fiskeldisgjaldi,“ segir Halldór og heldur áfram.
„Þrátt fyrir fögur fyrirheit um aðhaldssama fjármálaáætlun þar sem stigin verða stór skref í að koma böndum á óhóflegan vöxt ríkisútgjalda eru efndirnar því miður litlar. Þær aðhaldsaðgerðir sem eru tíundaðar hrökkva að okkar mati skammt sem viðbragð við þeirri áskorun sem íslenskt efnahagslíf stendur frammi fyrir,“ segir hann en aðgerðirnar beri einnig með sér að viljann skorti til þess að taka raunverulegar ákvarðanir um aðhald og beinan niðurskurð í ríkisrekstri.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.