„Ég þurfti að bíta svo oft í tunguna á mér í þessari umræðu að ég er alblóðugur. Ég bara skil ekki þessa umræðu,“ sagði Brynjar Níelsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu vegna vantrauststillögu gegn dómsmálaráðherra.
Brynjar, sem er einnig aðstoðarmaður dómsmálaráðherra, sagði þingið ekki geta krafist gagna sem væru ekki til. Það gæti aftur á móti krafist gagna sem væru til.
„Hvað er svona flókið við það?“ spurði hann í framhaldinu.
Hann sagði þingið ekki eiga rétt á því að stjórnsýslan og framkvæmdavaldið færi í vinnu um leið og þingið krefðist þess.
„Það er hvergi í lögum og það dettur það engum í hug að hafa það í lögum,“ bætti Brynjar við.