Heimilislæknir áminntur fyrir að votta dýralyf fyrir sjúkling

Lyfið sem deilt er um í málinu var dýralyf, það …
Lyfið sem deilt er um í málinu var dýralyf, það er lyf sem ætlað er dýrum en ekki mönnum. Ljósmynd/Colourbox

Heilbrigðisráðuneytið hefur staðfest ákvörðun embættis landlæknis frá 18. maí 2022 um að veita heimilislækni áminningu fyrir að gefa út rangt og villandi læknisvottorð.

Málið tengist innflutningi einstaklings á stungulyfi fyrir dýr, en virka efni lyfsins var ivermectin. Einstaklingurinn sem pantaði lyfið til landsins framvísaði læknisvottorði útgefnu af heimilislækninum sem gaf til kynna að fyrirhuguð notkun þess væri fyrir sjúklinginn sjálfan.

Fram kemur í úrskurðinum, að sjúklingurinn hafi að eigin sögn notað lyfið ivermectin yfir lengri tíma sem fyrirbyggjandi meðferð við SARS-CoV-2 sjúkdómnum (Covid-19) og hefði upplýst lækninn að hann hefði pantað lyfið erlendis frá en það hefði verið stöðvað af tollgæsluyfirvöldum. Læknirinn kvaðst ekki hafa vitað að sú útgáfa lyfsins sem sjúklingurinn hugðist flytja inn væri ætlað dýrum heldur gert ráð fyrir því að um væri að ræða lyf fyrir menn.

Áminntur fyrir að brjóta gegn starfsskyldum sínum

Með bréfi þann 23. mars 2022 tilkynnti embætti landlæknis lækninum um fyrirhugaða áminningu á grundvelli 14. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Í bréfinu kom fram að það væri mat embættisins að kærandi hefði brotið gegn starfsskyldum sínum samkvæmt 14. gr. laga um landlækni og lýðheilsu sem og tilgreindum ákvæðum laga um heilbrigðisstarfsmenn og laga um sjúkraskrár.

Læknirinn hefur byggt á því að hann telji embætti landlæknis ekki hafa uppfyllt rannsóknarskyldu sína við meðferð málsins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Þannig hafi embættið hvorki aflað álits frá Lyfjastofnun um umrætt lyf né haft samband við sjúklinginn og fengið að heyra sjónarmið hans.

Í niðurstöðu ráðuneytisins segir, að af gögnum málsins megi ráða að lyf það sem deilt er um í málinu hafi verið dýralyf, það sélyf sem ætlað er dýrum en ekki mönnum, og á þeim grunni taldi embætti landlæknis ekki tilefni til þess að óska umsagnar Lyfjastofnunar um lyfið.

Tilefni til að gæta ýtrustu varkárni

Ráðuneytið segir að læknirinn hafi borið endanlega ábyrgð á ritun umrædds læknisvottorðs og bar að auki að gæta þess að ávísa ekki lyfi sem hann hafði ekki fullnægjandi upplýsingar um og hefði getað skapað hættu fyrir umræddan sjúkling.

„Að mati ráðuneytisins var tilefni fyrir kæranda að gæta ýtrustu varkárni við útgáfu læknisvottorðsins í ljósi þeirra upplýsinga sem fram koma í svari hans frá 17. janúar 2022 um að sjúklingurinn hefði upplýst hann um að hann hefði pantað lyfið erlendis frá en það verið stöðvað af tollgæsluyfirvöldum og sjúklingurinn verið að leita til hans í fyrsta sinn. Með vísan til framangreinds er það mat ráðuneytisins að málið hafi talist nægjanlega upplýst á grundvelli þeirra upplýsinga sem aflað var og nauðsynlegar voru svo hægt væri að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Ráðuneytið tekur því ekki undir þá málsástæðu kæranda að nauðsynlegt hefði verið að afla álits frá Lyfjastofnun eða umræddum sjúklingi,“ segir í úrskurðinum.

Þá kemur fram, að við mat á því hvort rétt hafi verið af embætti landlæknis að áminna lækninn þá horfi ráðuneytið til þess að læknirinn braut gegn 3. og 4. mgr. 13. gr., auk 19. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn með ávísun lyfs þess sem um ræðir í málinu.

Ekki nóg að vera í góðri trú

Tekið er fram, að læknar beri ríka ábyrgð á heilsu og öryggi sjúklinga sinna og geti þannig ekki skýlt sér að baki sjónarmiðum líkt og að vera í góðri trú þegar þeir taka ákvarðanir um lyfjaávísanir án þess að ganga úr skugga um hvaða lyfi þeir eru raunverulega að ávísa, sbr. jafnframt 5. gr. reglugerðar um lyfjaávísanir og afhendingu lyfja, þar sem tilgreindar séu kröfur við gerð lyfjaávísana.

„Þannig má sjá í gögnum málsins að kærandi tilgreindi hvorki hvernig og hvenær sjúklingur hans ætti að nota hið ávísaða lyf né við hverju hann ætti að nota það líkt og honum var skylt að gera samkvæmt áðurnefndu reglugerðarákvæði. Þá hafi kærandi vanrækt að færa sjúkraskrá fyrir sjúkling sinn með fullnægjandi hætti, sbr. 4. gr. laga um sjúkraskrár, eins og honum var skylt að gera. Þá verður ekki litið fram hjá því, við mat á alvarleika brotsins, að umrætt lyf var í raun dýralyf og því hafi kærandi bersýnilega ekki gengið úr skugga um hvaða lyf hann hafi vottað. Það er því mat ráðuneytisins að vægara úrræði, líkt og tilmæli, hefðu ekki náð settu markmiði eins og málum var háttað og því hafi áminning kæranda ekki brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga,“ segir í úrskurði ráðuneytisins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert