Appelsínugul veðurviðvörun gildir á norðanverðum Austfjörðum til miðnættis í dag. Búast má við talsverðri eða mikilli snjókomu eða skafrenningi með þungri færð og lélegu skyggni. einkum norðantil á svæðinu. Miklar líkur eru á samgöngutruflunum.
Á sama tíma verður í gildi gul veðurviðvörun á sunnanverðum Austfjörðum. Búast má við talsverðri rigningu og hlýnandi veðri, asahláku, auknu afrennsli og vatnavöxtum.
Í dag verður austlæg átt og 13-20 metrar á sekúndu, hvassast suðaustantil, en mun hægari suðvestanlands. Það verður rigning eða slydda með köflum og hiti á bilinu 2 til 10 stig, en sums staðar snjókoma norðanlands með hita nærri frostmarki. Áfram verður talsverð eða mikil úrkoma austast.
Á morgun má búast við suðaustanátt, 8-15 metrum á sekúndu, hvassast með austurströndinni. Það verður rigning með köflum, en úrkomulaust að kalla á Norðurlandi. Hiti verður á bilinu 5 til 11 stig, hlýjast nyrðra.