„Ég vil segja það að hér hafa fallið stór orð því ég tel ekki einsýnt að hér hafi verið brotin lög,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í umræðu um vantrauststillögu á hendur dómsmálaráðherra.
Þingflokkar stjórnarandstöðunnar telja að ráðherra hafi brotið lög þegar hann breytti afgreiðslu umsókna um ríkisborgararétt hjá Útlendingastofnun og hvenær og hversu ítarlegar upplýsingar berast þinginu vegna sérstakra umsókna um ríkisborgararétt, sem það fjallar um.
Katrín sagði ljóst að uppi væri lögfræðilegur ágreiningur um málið og að breyta þyrfti verklagi og lögum. Bætti hún við að deilan gæti ekki haldið áfram með þeim hætti sem verið hefur.
Hún sagði vantrauststillöguna ekki vera nægilega vel rökstudda, en tók fram að hún væri fylgjandi því að Alþingi gæti veitt fólki ríkisborgararrétt. Samstaða þyrfti þó að vera um framkvæmdina.
„Ég leyfi mér að ímynda mér það að auðvitað hafi óviðeigandi ummæli ráðherra hér í þingsal á þriðjudag þar sem heilindi háttvirtra þingmanna voru dregin í efa haft einhver áhrif hér um,“ sagði Katrín um vantrauststillöguna og ítrekaði afstöðu sína um að þau ættu ekki við í þingsalnum.
Hún sagði minnisblað Alþingis varðandi afgreiðslu umsókna ekki skapa grunn fyrir vantrauststillögu fremur en ummæli Jóns.
Katrín nefndi einnig að vantrauststillagan væri ekki meðhöndluð af neinni léttúð af þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna en tók fram að slíkar tillögur væru iðulega settar fram til að kljúfa samstöðu í ríkisstjórninni.
„Ríkisstjórnarsamstarfið stendur styrkum fótum,“ bætti hún við.