Vegna mögulegrar úrkomu í formi rigningar biður aðgerðarstjórn Lögreglustjórans á Austurlandi íbúa að huga að niðurföllum vegna vatnsaga, samkvæmt tilkynningu.
Appelsínugul veðurviðvörun gildir á norðanverðum Austfjörðum til miðnættis í dag en búast má við talsverðri eða mikilli snjókomu eða skafrenningi með þungri færð og lélegu skyggni, einkum norðan til á svæðinu.
Á sama tíma verður í gildi gul veðurviðvörun á sunnanverðum Austfjörðum. Búast má við talsverðri rigningu og hlýnandi veðri, asahláku, auknu afrennsli og vatnavöxtum.
Verið er að skoða mögulega opnun milli Neskaupstaðar og Eskifjarðar um Fannardal sem og frá Reyðarfirði yfir á Egilsstaði um Fagradal. Báðir eru vegarkaflarnir lokaðir sem stendur.
Gert er ráð fyrir að úrkoma á Austurlandi nái hámarki síðar í dag og allar varúðarráðstafanir eru enn til staðar vegna snjóflóðahættu.
Fundur er með Veðurstofu og almannavörnum klukkan 11 í dag þar sem staðan verður metin.
Íbúar eru beðnir um að huga vel að tilkynningum í fjölmiðlum, á vef almannavarna, Veðurstofu og Vegagerðar sem og á fésbókarsíðum lögreglu og sveitarfélaga, eins og segir í tilkynningu frá aðgerðarstjórn.