Formaður BHM segir ástæðuna að baki því að BHM sé ekki búið að undirrita kjarasamninga á meðan BSRB hefur gert það vera afar praktíska. Formenn BSRB og BHM hafi mismunandi umboð.
Friðrik Jónsson, formaður BHM útskýrir málið í samtali við mbl.is. Hann segir Sonju Ýr Þorbergsdóttur hafa haft fullt samningsumboð en hann hafi sjálfur aðeins haft viðræðuumboð. Samningsumboð hjá BHM liggi hjá félögum bandalagsins.
„Ég skrifa ekki undir kjarasamninga fyrir hönd aðildarfélaga BHM, ég sá um að vinna þetta rammasamkomulag og síðan er það félagana að klára. Þau vilja mögulega ræða einhver sérmál við sinn viðsemjanda. Í sumum tilfellum þá er það þannig að félag mætir jafnvel og skrifar beint undir, í einhverjum tilfellum eru það einhver eitt, tvö, auka mál,“ segir Friðrik.
Hann búist við því að öll félög verði búin að skrifa undir í kringum mánaðamótin. Ferlið sem fylgi því að klára ferlið taki þó einhvern tíma. Einhver félög innan BHM muni eflaust vilja bæta við sératriðum.
„BSRB kláraði samning og svo komu félögin og skrifuðu undir samning eins og var búið að ganga frá í krafti þess samningsumboðs sem Sonja hafði. Ég geng frá þessu sem kallað er rammasamkomulag. Flest mín félög geri ég ráð fyrir að muni bara nota þetta rammasamkomulag, bæta við einhverjum sératriðum sem varða þeirra félag sérstaklega og kvitta svo undir og klára og allir lifa hamingjusamir í nokkrar vikur þangað til við byrjum að undirbúa langtímasamning næsta vor,“ segir Friðrik.
Bandalögin séu mismunandi en visst samræmi sé á milli þeirra hvað varðar ákveðin atriði.
„Mikil samvinna og samræming okkar á milli varðandi fullt af atriðum. Eins og mun sjást í samningunum þegar þeir eru komnir í ljós að við erum með sameiginlega verkáætlun inn í næstu tólf mánuði þar sem heildarsamtökin verða saman að ræða stór atriði við opinbera launagreiðendur,“ segir Friðrik.
Þá geri hann ráð fyrir að bandalögin klári samninga við Samband íslenskra sveitarfélaga á morgun eða hinn.
„Í mínu tilfelli þá koma þau félög sem eru með samning við sambandið og klára frágang á sínum samningum,“ segir Friðrik.