Rýmingarsvæði á Neskaupstað hefur nú verið stækkað og sömuleiðis á Seyðisfirði. Ný rýmingaráætlun tók gildi klukkan 20.00. Formaður björgunarsveitarinnar Gerpis segir ákvörðunina hafa verið tekna vegna áhættumats Veðurstofunnar. Yfirlögregluþjónn á svæðinu segir rýmingu ganga vel.
Götuheiti og húsnúmer innan nýrra rýmingarsvæða má sjá að neðan.
„Í ytri hluta fjallsins höfum við ekki verið að sjá fjallið vera að hreinsa sig eins og á öðrum stöðum,“ segir Daði Benediktsson, formaður björgunarsveitarinnar Gerpis í samtali við mbl.is en um er að ræða svæðið þar sem flóðið féll áður og þar fyrir utan.
Næstu skref björgunarsveitarinnar séu að aðstoða víð rýmingu og fylgja henni eftir. Hann segist reikna með því að aukin rýming hafi áhrif á um fimmtíu íbúa til viðbótar við þá sem þegar höfðu yfirgefið heimili sín.
Ólafur Tryggvi Ólafsson, yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra segir rýminguna ganga vel og skilvirkt fyrir sig.
„Þeð gengur bara glimrandi að rýma, það hafa ekki komið upp nein vandamál og samvinna íbúa upp á tíu,“ segir Ólafur.
Spurður hvort hann geri ráð fyrir því að finna svefnpláss í nótt segist hann gera ráð fyrir því en eins og áður sagði bætist nú mikill fjöldi íbúa við þann hóp sem að þurfa að finna gistingu í Neskaupstað vegna flóðanna.
Þá hefur rýmingarsvæði einnig verið stækkað á Seyðisfirði en ekki liggur fyrir hversu marga íbúa sú rýming mun hafa áhrif á.
Vegna úrkomu, skafrennings og slæmrar veðurspár var fólk á Austfjörðum beðið um að huga að niðurföllum. Svo virðist vera sem úrkoman sé þegar farin að hafa áhrif en nú flæðir vatn inn í áhaldageymslu björgunarsveitarinnar.
Rýmingin sem tók gildi nú klukkan 20.00 í Neskaupstað á við reit átján en um er að ræða eftirfarandi götur og heimilisföng:
Líkt og áður eru íbúar á rýmingarsvæðum beðnir um að gefa sig fram í fjöldahjálparstöðinni í Egilsbúð eða hafa samband í síma 1717 er fyrirhugaður dvalarstaður liggur fyrir.
Þá hefur Veðurstofan metið sem svo að stækka þurfi rýmingarsvæði á Seyðisfirði vegna ofanflóðahættu. Um er að ræða rýmingu á reitum 11, 13 og 15. Íbúar eru beðnir um að gefa sig fram í fjöldahjálparstöð í Herðubreið eða hafa samband í síma 1717 er fyrirhugaður dvalarstaður liggur fyrir.
Um er að ræða eftirfarandi götur og heimilisföng:
Reitur 11
Reitur 13
Reitur 15
Uppfært klukkan 21.46:
Lögreglan á Austurlandi hefur sent frá sér breytingu á rýmingu í reit 18. Hana má sjá hér að neðan.