Rýmingar víða á Austfjörðum

Enn falla snjóflóð við Neskaupstað.
Enn falla snjóflóð við Neskaupstað. Eggert Jóhannesson

Veðurstofa Íslands hefur boðað til enn frekari rýmingar í Neskaupstað til viðbótar við rýmingu á Eskifirði, Stöðvarfirði og Fáskrúðsfirði í dag vegna snjóflóðahættu.

Rýmingin í Neskaupstað gildir frá klukkan 15 en um er að ræða húsaraðir á reitum 8 – 11 – 14. Urðarteig, Blómsturvelli, og Víðimýri, að húsum 2-12a við Urðarteig undanskildum.

Íbúar eru beðnir um að gefa sig fram í fjöldahjálparstöð í Egilsbúð eða hafa samband í hjálparsíma 1717 ef dvalarstaður þeirra liggur fyrir

Rýming á Eskifirði, Stöðvarfirði og Fáskrúðsfirði

Rýming er þegar hafin á Eskifirði, Stöðvarfirði og Fáskrúðsfirði og ætlast er til þess að búið sé að rýma svæðið klukkan 16.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum.
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum. mbl.is/Ásdís

„Ég á ekki von á öðru en að þetta standi yfir fram eftir morgundeginum.“ segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum lögreglu, í samtali við mbl.is. Hann bætir þó við að aðstæður verði metnar jafnt og þétt og aflétt verði fyrr ef liggi nægilegur grundvöllur fyrir því.

„Þetta er út af hlákunni sem er að koma,“ segir hann en veðurfræðingar á Veðurstofu Íslands hafa varað við talsverðri úrkomu á austanverðu landinu. „Enn þá er talað um hættu á krapaflóðum á þessum stöðum,“ bætir Víðir við.

Víðir segir að það sé erfitt að segja til um hversu lengi rýmingin muni standa yfir. „Við erum að horfa á að spáin haldi svona áfram með þessari úrkomu fram eftir degi á morgun.“

„Ég talaði við sveitastjórann í Fjarðabyggð áðan og þá átti hann von á því að þetta fólk, sem er á þessum svæðum, væri hægt að koma fyrir í gistingu og þyrfti ekki að fara í fjöldahjálparstöð,“ segir hann og bætir við að þar sem aðeins sé um að ræða smá svæði innan bæjarfélaganna eigi fólk auðvelt með að finna stað til þess að gista.

Þrjú flóð hafa fallið í dag

Þrjú snjóflóð hafa fallið við Neskaupstað í dag. Fyrstu tvö féllu á tíunda tímanum í morgun. Annað þeirra varð við Stóralækjagil en hitt við Drangaskarð.

Þriðja flóðið féll á tólfta tímanum í morgun við Innra-Tröllagil í fjallshlíðinni ofan Neskaupstaðar. Óvissustig vegna snjóflóða er í gildi á Austfjörðum hættustig er í Neskaupsstað, á Seyðisfirði og Eskifirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert