Inga Sæland, þingmaður Flokks fólksins, sagði í umræðu um vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar á Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra að tillagan liggi ekki fyrir af léttúð.
Hún sagði að geðþóttaákvarðanir einstaka ráðherra séu með öllu ólíðandi en dómsmálaráðherra er gert að hafa bannað Útlendingastofnun að afhenda alþingi gögn í sambandi við veitingu ríkisborgararéttar.
Inga sagði að það væri af virðingu við lýðræðið, stjórnarskrá lýðveldisins og þrískiptingu ríkisvaldsins sem stjórnarandstaðan væri knúin til að stíga fram fyrir skjöldu og verja þessar mikilvægustu burðarstoðir stjórnskipunar landsins.
Hún sagði að það væri af virðingu við verk alþingismanna, við löggjafann sem kjörinn er af alþýðu landsins, kjósendum landsins að settar séu reglur sem almenningur og aðrir eru skikkaðir til að fylgja og að geðþóttaákvarðanir einstaka ráðherra séu með öllu ólíðandi.
Þingmaðurinn gerði að umtalsefni sínu orð Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur utanríkisráðherra og þingmanni Sjálfstæðisflokks um að löggjafinn geti ekki krafist gagna frá Útlendingastofnun og spurði hvenær það hafi verið í umræðunni.
Inga sagði hafið yfir allan vafa að dómsmálaráðherra beri ábyrgð á því að þau gögn sem Alþingi biður um, í hvaða fastanefnd sem er, verði afhent Alþingi og það gildi fyrir hvaða ráðherra sem er. Hún sagði þetta alveg skýrt og að ráðherra hafi til þess eina viku.
Hún sagði óþarfi að flækja málin og draga í efa hvað raunverulega skrifaður bókstafur í löggjöfinni segir. Hún sagði lagabókstafinn skýran.
Málið snýst um geðþótta ráðherrans að mati Ingu og hvort hann sé hafinn yfir lög og reglur. Hún sagði þau skilaboð út í samfélagið vera síðasta sort og að framkoma ráðherra vegi að þrískiptingu ríkisvaldsins og að þingræðinu. Hún sagði þingið ekki geta látið kyrrt liggja.
Þá hvatti hún forseta, alþingismenn og ráðherra til að samþykkja vantrauststillöguna og standa þannig með stjórnarskrá lýðveldisins, þrískiptingu ríkisvaldsins, grundvallarstoðum réttarríkisins og stjórnskipan landsins.
Þá tók til máls innviðaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, sem sagði það vera lögfræðilegum vafa undirorpið hvaða gögn Útlendingastofnun beri að afhenda þinginu og hvenær henni beri að gera það. Þannig sagði hann umrædda vantrauststillögu hvíla á veikum grunni.
Hann sagði að sér sýndist að vantraust nú væri til komið vegna þess að dómsmálaráðherra hafi vegið að heilindum þeirra sem harðast hafa barist gegn hinu svokallaða útlendingafrumvarpi.
Sigurður Ingi sagðist oft hafa tekist hart á við dómsmálaráðherra og að því fari fjarri að hann sé alltaf sammála honum, einstaka ákvörðunum hans eða hvernig hann á til að kynna mál sitt og setja fram. Hann sagði vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar hins vegar í sínum huga hluta af eitraðri orðræðuhefð sem hafi skapast í kringum málefni útlendinga á Alþingi Íslendinga.
Sigurður sagði þá sem harðast hafa talað, til dæmis gegn útlendingafrumvarpinu, hafa gert mikið til að magna upp átök um málefnið þegar það væri fyrst og fremst skylda þingmanna að tala af yfirvegun, skynsemi og mannúð um þennan viðkvæma málaflokk.
Hann sagði stjórnaandstöðuna einu sinni enn freista þess að búa til átök um útlendingamál á Íslandi að þessu sinni með því að krefjast þess að dómsmálaráðherra fari frá og kljúfa þannig ríkisstjórnina. Ríkisstjórn, sem ásamt Alþingi öllu og öllum landsmönnum, stendur frammi fyrir mikilvægu verkefni í því að verja lífskjör þjóðarinnar við erfiðar efnahagslegar aðstæður.
„Sjaldan veldur einn er tveir deila, segir máltekið. Látum þessa umræðu marka endalok ofsafenginnar umræðu um viðkvæmt málefni og upphafið af umræðum sem einkennast af skynsemi, yfirvegun og mannúð,“ sagði Sigurður Ingi.