Landspítalinn hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem brugðist er við umræðu um meint mistök í starfi spítalans, er varða tilvísanir í blóðrannsóknir. Kveðst spítalinn ekki hafa komið að umræddu máli með neinum hætti.
„Landspítali átti engan þátt í tilvísun blóðrannsóknar sem til umfjöllunar hefur verið og hefur ekki með nokkrum hætti tekið þátt í þeirri heilbrigðisþjónustu sem umfjöllunin snýr að,“ segir í yfirlýsingu spítalans.
Greint var frá því í Morgunblaðinu á mánudag að mistök hafi orðið á Landspítalanum, sem leiddu til þess að læknir frá Palestínu sem lést árið 2011 var skrifaður fyrir blóðrannsókn frá fyrirtækinu Greenfit.
Nú hefur spítalinn aftur á móti vísað því á bug, án þess þó að nefna umrætt fyrirtæki á nafn.
Í yfirlýsingunni segir jafnframt að öryggi og umhyggja sé að leiðarljósi í heilbrigðisþjónustu spítalans, þar sem fagmennska ráði ríkjum.
„Umfjöllun og umræða undanfarna daga vekur spítalann til umhugsunar um skipulag, umfang og framkvæmd heilbrigðisþjónustu sem veitt er hér á landi og eftirlit með slíkri starfsemi.“
Mikil umræða hefur skapast undanfarna viku um starfsemi Greenfit og ábyrgð á blóðmælingum, ekki síst innan íslenskrar læknastéttar.
Málið er í skoðun hjá Landlæknisembættinu, að sögn Kjartans Hreins Njálssonar, aðstoðarmanns Landlæknis.
Yfirlýsingu spítalans í heild sinni má finna á vef Landspítala hér.