Andlát: Jónína Pálsdóttir tannlæknir

Jónína Pálsdóttir tannlæknir.
Jónína Pálsdóttir tannlæknir. Ljósmynd/Aðsend

Jónína Pálsdóttir tannlæknir lést í Gautaborg 27. mars sl., á 74. aldursári.

Nína, eins og hún var alltaf kölluð, fæddist 14. desember 1949 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru hjónin Páll Sigurðsson, bæklunarlæknir og ráðuneytisstjóri (1925-2020), og Guðrún Jónsdóttir geðlæknir (1926-2019).

Nína lauk stúdentsprófi frá MR 1969 og tannlæknaprófi frá HÍ 1979. Hún fékk tannlæknaleyfi hér á landi 1979 og í Svíþjóð 1980. Hún lauk diplómanámi í lýðheilsufræðum við Norræna heilsuverndarháskólann í Gautaborg 1992 og hafði áður lokið viðbótarnámi við tannlæknadeild Gautaborgarháskóla.

Nína var tannlæknir í Gautaborg 1979-1990 og skólatannlæknir í Reykjavík 1990-2002. Hún rak eigin tannlæknastofu í Kópavogi frá 2002 til starfsloka 2019.

Hún var formaður Félags skólatannlækna í Reykjavík 1992-1994. Þá var hún virkur félagi í Zontaklúbbnum Emblu frá 1990 til 2019, sat í stjórn klúbbsins 1996-1999 og 2017-2019, var formaður hans 1998-1999 og varaformaður 2018-2019.

Nína giftist 7. október 1972 eftirlifandi eiginmanni sínum, dr. Magnúsi Guðmundssyni, f. 30. október 1949, lyf- og gigtarlækni. Börn þeirra eru Guðrún Lilja Magnúsdóttir, f. 1974, og Atli Páll Magnússon, f. 1981. Barnabörnin eru fjögur. Nína og Magnús bjuggu í Gautaborg í Svíþjóð 1979 til 1990, fluttu þangað aftur við starfslok 2019 og hafa búið þar síðan.

Systkini Nínu eru tvíburasystirin Ingibjörg (Inga) lyfjafræðingur, f. 1949, Dögg lögfræðingur, f. 1956, og tvíburarnir dr. Sigurður Páll geðlæknir og Jón Rúnar lögfræðingur, f. 1960.

Útför Nínu verður í kyrrþey hér á landi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert