Edda Falak braut lög

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur komist að þeirri niðurstöðu að Edda Falak …
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur komist að þeirri niðurstöðu að Edda Falak hafi gerst brotleg við lög um friðhelgi einkalífsins.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur komist að þeirri niðurstöðu að fjölmiðlakonan Edda Falak hafi brotið lög um friðhelgi einkalífsins þegar hún birti hljóðupptöku af samskiptum mæðgna í þætti sínum. Dómur var kveðinn upp í héraðsdómi í morgun og Eddu gert að greiða móður konu, sem var gestur í hlaðvarpsþáttunum Eigin konur á síðasta ári, 400 þúsund krónur í bætur. 

Þá þurfi Edda einnig að greiða málskostnað konunnar, 900 þúsund krónur. Auður Björg Jónsdóttir, lögmaður konunnar, staðfestir þetta í samtali við mbl.is.

Edda hélt úti hlaðvarpsþáttunum Eigin konur allt til loka síðasta árs, síðast undir formerkjum Stundarinnar. Þegar Stundin og Kjarninn sameinuðust í Heimildina gekk hún til liðs við ritstjórn Heimildarinnar og stýrir þar þáttum. 

Konan höfðaði mál gegn Eddu og sakaði hana um að hafa brotið gróflega gegn friðhelgi einkalífs síns með birtingu á hljóðupptökunni.

Í hljóðupptökunni heyrist samtal þeirra mæðgna, en dóttirin tók hana upp án vitundar móður sinnar. 

Gagnrýnir fjölmiðlanefnd harðlega

Ekki var farið fram á að upptakan væri tekin út úr þættinum eða af samfélagsmiðlum þáttanna, en þá kröfu hafði konan áður lagt fram við fjölmiðlanefnd síðasta haust. Var það gert talsvert áður en konan höfðaði mál gegn Eddu.  

Fjölmiðlanefnd ákvað að fresta meðferð kröfu konunnar þar sem hún hefði höfðað mál gegn Eddu fyrir dómstólum. Nú hefur fjölmiðlanefnd ákveðið að taka afstöðu í málinu hinn 27. apríl næstkomandi. 

Lögmaður konunnar segir að vinnubrögð fjölmiðlanefndar séu óboðleg. Ef fjölmiðlanefnd starfaði eins og hún lögum samkvæmt ætti að gera, væri hún löngu búin að taka afstöðu í málinu, og krefjast þess af Eddu að upptakan yrði tekin úr þættinum og af samfélagsmiðlum. Niðurstaða héraðsdóms hafi sannað það í dag að miðlun hennar bryti í bága við friðhelgi einkalífs.

Þá vilji hún einnig koma því á framfæri að umbjóðandi hennar neiti því alfarið að hún hafi beitt dóttur sína ofbeldi líkt og dóttirin tjáir sig um í hlaðvarpsþætti Eddu.

Í samtali við mbl.is segir lögmaður Eddu að ekki sé búið að taka ákvörðun um hvort málinu verði áfrýjað til Landsréttar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka