Árekstur varð við Hagamel í Hvalfjarðarsveit um miðjan dag í dag. Einn var fastur í bíl eftir áreksturinn en gekk vel að ná honum út. Aðeins einn var fluttur á sjúkrahús á Akranesi.
Þetta staðfestir Björn Bergmann Þórhallsson, varaslökkviliðsstjóri hjá slökkviliði Akraness og Hvalfjarðarsveitar. Hann segir jafnframt engin alvarleg slys hafa orðið á fólki.
Slökkviliðinu barst útkallið frá neyðarlínunni klukkan 15:44. Tíu manns voru sendir á staðinn í tveimur klippubílum frá slökkviliðinu en einn sjúkrabíll var sendur á staðinn að auki.