Mikið var að gera í umferðinni hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í dag. Umferðarslys varð við Hringbraut, tjónvaldur ók á brott eftir árekstur og árekstur varð á milli bifreiðar og rafhlaupahjóls á Digranesi.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Greint er frá því að klukkan rétt rúmlega fjögur í dag hafi umferðarslys orðið við Hringbraut og Njarðargötu en ökumennirnir hafi sloppið með minniháttar meiðsl. Vegurinn hafi þó lokast um stund vegna óhappsins.
Þá hafi árekstur orðið á milli bifreiðar og rafhlaupahjóls á Digranesi í Kópavogi. Lögregla telur allar líkur á því „að ökumaður rafhlaupahjólsins hafi ekki sýnt nægilega aðgæslu við akstur þess.“
Á Grensásvegi hafi bifreið verið ekið á aðra slíka en sá sem olli tjóninu hafi keyrt í burtu. Þrátt fyrir það hafi lögregla upplýsingar um það hver ökumaðurinn sé.
Í Hafnarfirði voru sex bifreiðar sviptar skráningarmerki fyrir það að vera án trygginga og vanrækslu á skoðun.