Frumvarp um nýtingu kynfruma og fósturvísa

Gildandi lög um tæknifrjóvgun kveða á um að að kynfrumum …
Gildandi lög um tæknifrjóvgun kveða á um að að kynfrumum eða fósturvísum skuli eytt skilyrðislaust, slíti foreldrar sambúð eða annað látist. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um tæknifrjóvgun. Gildandi lög kveða á um að að kynfrumum eða fósturvísum skuli eytt skilyrðislaust látist annar aðilinn, eða komi til sambúðarslita. Með lagabreytingunni verði virtur vilji einstaklingsins, til að nýta kynfrumu eða fósturvísi sé þess óskað.

Í tilkynningu frá Stjórnarráðinu kemur fram að:

„Með breytingunni er ekki verið að heimila gjöf fósturvísa til notkunar þriðja aðila, heldur á frumvarpið einungis við pör sem hafa staðið saman að tæknifrjóvgunarferli. Réttur einstaklings til að heimila notkun kynfrumna eftir andlát, skilnað eða sambúðarslit verður bundinn við að viðkomandi hafi verið í sambúð við þann sem mun ganga með barnið. Vilji beggja aðila þessa efnis þarf að vera skýr og fyrirliggjandi. Sama máli gegnir um notkun fósturvísis.“

Eini möguleikin til að eignast barn í sumum tilfellum

Lagabreytingin er ætluð til þess að jafna réttarstöðu ólíkra fjölskylduforma og styrkja meginmarkið tæknifrjóvgunar sem er að hjálpa fólki að eignast barn. Nýting fósturvísa og kynfrumna getur í sumum tilfellum verið eini möguleiki einstaklings til að eignast barn, til dæmis eftir sjúkdómameðferðir eða af sökum aldurs.

Í tilkynningunni kemur fram að „Gildandi reglur um foreldrastöðu eftir tæknifrjóvgun verða óbreyttar. Í þeim felst m.a. að par sem þegið hefur gjafakynfrumur verða foreldrar barns þegar það fæðist. Á sama hátt eru þau sem sameiginlega tóku ákvörðun um að geyma kynfrumur eða fósturvísi sem eru foreldrar barns sem verður til við þær aðstæður sem frumvarpið fjallar um,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert