Viðar Guðjónsson
Lögreglan á Fáskrúðsfirði er að ljúka við rýmingu á reit sex í bænum vegna snjóflóðahættu.
Þetta segir Óskar Þór Guðmundsson vettvangsstjóri og lögreglumaður á Fáskrúðsfirði.
„Það er gert í varúðarskyni eftir að við skoðuðum fjallið með flygildi. Þá tók ofanflóðavakt Veðurstofunnar ákvörðun um að rýma þennan reit,“ segir hann í samtali við blaðamann mbl.is á staðnum.
Spurður segir Óskar Þór að bæjarbúar hafi tekið þessum fyrirmælum með stóískri ró enda séu þeir vanir ofanflóðahættu á svæðinu. Sjö björgunarsveitarmenn frá Geisla á Fáskrúðsfirði hafa aðstoðað fólk við rýminguna.
Þar að auki hefur fjöldahjálparmiðstöð verið komið upp í grunnskóla bæjarins.