Rúmlega sextugur karlmaður vann 99,3 milljónir króna í EuroJackpot eftir að hafa fengið fimm réttar tölur ásamt einni stjörnutölu.
Miðinn var keyptur í Bitahöllinni á Bíldshöfða í Reykjavík.
„Vinningshafinn komst að því þegar hann fylgdist með Lottó-útdrættinum á laugardagskvöld að vinningsmiðinn í EuroJackpot hefði verið keyptur í Bitahöllinni og neyddist því til að standa upp frá sjónvarpinu, staulast inn í eldhús og finna miðann sinn. Hann var þó furðu rólegur þegar hann áttaði sig á vinningnum og beið fram á miðvikudag með að gefa sig fram,“ segir í tilkynningu frá Íslenskri getspá.
Sá heppni ætlar að kaupa sér nýja íbúð á draumastað fyrir vinninginn og jafnvel uppfæra fararskjótann fyrir afganginn.