Lækkun endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna bygginga íbúða, endurbóta og viðhalds niður í 35% úr 60% um mitt árið gæti aukið byggingakostnað um 2%. Þetta mat kemur fram í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Þrátt fyrir hækkunina telur ríkisstjórnin að áfram verði mikil umsvif á byggingarmarkaði.
Í Morgunblaðinu í dag kom fram að Samtök iðnaðarins mætu það svo að verð nýrra íbúða gæti hækkað um 3-5% vegna breytingarinnar.
Endurgreiðsluhlutfallið hefur sveiflast nokkuð síðasta áratuginn eða svo. Hlutfallið var hækkað í 100% eftir efnahagshrunið, í því skyni að örva byggingargeirann, en var svo lækkað í 60% 2013. Það var aftur hækkað í 100% í farsóttinni og gilti það til 31. ágúst í fyrra.
Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að lækka endurgreiðsluhlutfallið er liður í áætlun hennar að reyna að tempra verðbólguna og þensluna sem er hér á landi í dag. Í nýrri tilkynningu á vef Stjórnarráðsins kemur hins vegar fram að áfram sé búist við miklum umsvifum á byggingarmarkaðinum.
Er þar vísað til þess að þrátt fyrir lækkanir undanfarna mánuði á húsnæðismarkaði, umfram það sem gerðist á hinum Norðurlöndunum, þá sé verð enn hærra en það var fyrir ári síða og hafi hækkað langt umfram áætlaðan byggingakostnað
Er einnig vísað til þess að þrátt fyrir lækkun húsnæðisverðs, hækkandi fjármagnskostnað og aukinn kostnað, bæði vegna alþjóðlegra kostnaðarhækkana og talsverðra launahækkana í nýlegum kjarasamningum, séu umsvif á markaðinum enn mikil. Vísað er til þess að í dag séu yfir 7.000 íbúðir í byggingu, svipað magn og var um áramótin, en aldrei áður höfðu verið fleiri íbúðir í byggingu á sama tíma.
Þá er vísað til talna um útlán til byggingafyrirtækja og að þau hafi aukist mikið í ársbyrjun. Einnig séu stór fjárfestingaverkefni framundan sem auki framleiðslugetu hagkerfisins, svo sem á vegum Landsvirkjunar, Landspítala og Betri samgangna.
Í lok tilkynningarinnar er svo vísað til þess hvað Seðlabankinn gæti gert ef verðbólga og verðbólguvæntingar lækki. „Eftir því sem verðbólga og verðbólguvæntingar lækka munu vextir lækka á ný. Seðlabankinn ætti einnig að geta dregið úr hertum lánþegaskilyrðum. Við þær aðstæður ætti kostnaður við íbúðarbyggingar að lækka á ný og eftirspurn að aukast. Húsnæðisverð gæti við þær aðstæður þá náð jafnvægi á ný.“