„Síðasta fréttin hefur verið birt“

Sigmundur segir tíðindin hafa komið flatt upp á almenna starfsmenn.
Sigmundur segir tíðindin hafa komið flatt upp á almenna starfsmenn. Samsett mynd

„Fólk er bara hætt störfum. Síðasta fréttin hefur verið birt og síðasta blaðið er komið út,“ segir Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri Fréttablaðsins, í samtali við mbl.is.

Útgáfufélagið Torg sendi frá sér yfirlýsingu fyrr í dag um að útgáfu Fréttablaðsins yrði hætt og verður fréttavefnum lokað síðar í dag.

Sem stjórnandi hafði Sigmundur fengið veður af tíðindum sem komu flatt upp á almenna starfsmenn, en einhverjir voru jafnvel við störf á vettvangi og lásu fréttirnar á vefnum.

„Þetta kom flatt upp á almenna starfsmenn sem hafa verið að róa lífróður í útgáfu og fréttaskrifum undanfarna mánuði. Fyrst og fremst er þetta áfall fyrir samstarfsfólkið og líka áfall fyrir íslenska þjóð sem missir sterka fjölmiðla sem hafa skapað mikil menningarverðmæti og lýðræðislegan þrótt í landinu,“ segir Sigmundur.

„Ég fer bara að skrifa bækur“

Hann segir það ekki launungamál að rekstarumhverfi einkarekinna fjölmiðla sér „hörmulegt“ og hafi verið það allar götur síðan einokun Ríkisútvarpsins var afnumin. Ekki hafi verið gert ráð einkareknum ljósvakamiðlum í því umhverfi.

„Það er kolvitlaust gefið á þessum markaði en ef til vill er það aukaatriði í dag þegar við missum enn einn fjölmiðillinn. Við erum búin að missa marga fjölmiðla undanfarin misseri og það virðist vera þverpólitísk sátt um það að fækka fjölmiðlum á Íslandi.“

Sigmundur segir nú bara fararsnið á fólki á ritstjórninni, enda ekkert eftir sem þarf að klára.

Og þú sjálfur, hvað gerir þú?

„Ég fer bara að skrifa bækur. Ég á svo margar óskrifaðar bækur eftir og svo held ég áfram að vinna sjónvarpsefni með konunni minni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka