Pálmi Guðmundsson fjölmiðla- og rekstrarhagfræðingur hefur verið ráðinn forstöðumaður þróunarmála hjá Árvakri. Pálmi hefur ríflega 22 ára reynslu úr fjölmiðlum. Hann var dagskrárstjóri í Sjónvarpi Símans í tæp tíu ár. Þar á undan, frá 2007-2013, var hann framkvæmdastjóri dagskrár- og markaðssviðs 365 miðla, sem og markaðsstjóri Íslenska útvarpsfélagsins frá 2001-2006.
„Það er mikill fengur fyrir okkur hjá Árvakri að fá reyndan mann af fjölmiðlamarkaði sem hefur getið sér gott orð með sínum störfum,“ segir Magnús E. Kristjánsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs hjá Árvakri. „Við munum setja aukna áherslu og metnað í stafræna þróun næstu misserin og er þessi ráðning liður í þeirri vegferð.“
Aðspurður segist Pálmi hlakka mikið til að fá að starfa fyrir Árvakur, sem rekur Morgunblaðið, mbl.is og útvarpsstöðvarnar K100 og Retró. „Það er mikil tilhlökkun og spennandi áskorun að fylgja Árvakri inn í nýja tíma ásamt frábæru samstarfsfólki og viðskiptavinum. Fjölmiðlaumhverfið á Íslandi er krefjandi og stafræn þróun afar mikilvæg í því augnamiði að auka framboð og aðgengi að vönduðu efni.“
Pálmi nam fjölmiðla- og rekstrarhagfræði við Walter Cronkite School of Journalism í Arizona State University. Hann hefur jafnframt sótt stjórnendaþjálfun, Advanced Management Program hjá IESE University of Navarra í New York og í samningatækni og stjórnun hjá Harvard Law í Boston.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.