Stefán Pétursson og börn þurftu öðru sinni að rýma hús sitt í Neskaupstað um miðjan dag í gær. Fjölskyldan hafði fengið að fara heim í fyrradag og því kom þeim nokkuð á óvart að þurfa að fara aftur út með hraði.
Stefán var að skipta um föt þegar blaðamaður og ljósmyndari bönkuðu upp á og í anddyrinu voru tilbúnar ferðatöskur áður en haldið var af stað til vinafólks í nærliggjandi götu. Sigríður Guðjónsdóttir kona hans var í vinnunni.
„Við fórum heim í gær (fyrradag) og rekin aftur út núna. Þetta kom á óvart að þessu sinni. Raunar kom þetta svo á óvart að ég var byrjaður að mála eldhúsið og þurfti að hætta í miðjum klíðum,“ segir Stefán og hlær við. „Maður verður bara að hlýða Víði. Það heldur bara áfram,“ segir Stefán, sem er rannsóknarmaður í Síldarvinnslunni.
Hann segir að í ljósi snjóflóðavarnargarða hafi hann ekki búist við því að þurfa að rýma húsið. „Maður hélt að maður væri öruggur undir þeim,“ segir Stefán. Hann segir að nokkur beygur sé í fólki í bænum. „Það eru allir ósáttir við að ekki sé búið að klára síðasta varnargarðinn. Hann hefði bjargað blokkunum sem lentu í mesta flóðinu,“ segir Stefán.
Hann segir að fjölskyldan taki því sem að höndum ber. „Krakkarnir eru spenntir og finnst þetta bara gaman,“ segir Stefán. Hrafnhildur Lilja og Hlynur Fannar eru börn Péturs og Sigríðar. „Þetta er gaman en smá stressandi,“ segir Hrafnhildur Lilja. „Ég finn ekkert mikið fyrir þessu. Rólegur undir þessum varnargörðum bara,“ segir Hlynur Fannar.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.