Engin flóð í nótt: Munu skoða frekari afléttingar

Frá Neskaupstað eftir snjóflóð en engin snjóflóð urðu í nótt.
Frá Neskaupstað eftir snjóflóð en engin snjóflóð urðu í nótt. Ljósmynd/Landsbjörg

Töluverð úrkoma hefur verið á Austurlandi í nótt en gul veðurviðvörun gildir á Austfjörðum til klukkan 13.00 í dag. Þrátt fyrir úrkomu hafa ekki fallið nein flóð í nótt þó að vatnavextir í ám hafi verið töluverður.

Þetta staðfestir Magni Hreinn Jónsson Fagstjóri ofanflóða hjá Veðurstofu Íslands.

Skánar til muna

Eins og áður hefur verið greint frá hafa þó nokkur snjóflóð fallið síðustu daga á Austurlandi og hefur verið lýst yfir óvissustigi vegna snjóflóðahættu á Austurlandi. Hættustig er í gildi í Neskaupstað, Seyðisfirði, Eskifirði, Fáskrúðsfirði og Stöðvafirði.

„Engin krapaflóð eða snjóflóð hafa fallið í nótt sem við vitum um,“ segir Magni. Allt sé með kyrrum kjörum á Austurlandi eins og staðan er núna.

Hann bætir við að það muni stytta upp í hádeginu og að þá muni staðan skána til muna. „Þá er hægt að skoða með afléttingar á rýmingum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert