„Hún framdi á mér réttarmorð“

Margrét Friðriksdóttir ritstjóri frettin.is.
Margrét Friðriksdóttir ritstjóri frettin.is. Ljósmynd/Aðsend

Barbara Björnsdóttir, héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, hefur stefnt Margréti Friðriksdóttur, ritstjóra frettin.is, fyrir meiðyrði. Margrét staðfestir þetta í samtali við mbl.is og heldur fram sakleysi sínu.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu yfirheyrði Margréti á fimmtudaginn vegna málsins en að mati Margrétar skýtur yfirheyrslan skökku við og vísar hún til annarra meiðyrðamála sem lögreglan hefur ekki skipt sér af.

„Þetta er flokkað undir einkamál og mér var sjálfri vísað frá lögreglu vegna hótana og ærumeiðinga fyrir tveimur til þremur árum síðan og lögreglan sagði mér að ég yrði að fara í einkamál. Þetta er sama með Ingó málið. Lögreglan tekur ekki við svona ærumeiðingamálum en ætlar að gera það í tilviki Barböru.“

Meiðyrði úr Facebook-færslu

Meint meiðyrði Margrétar í garð Barböru eru ummæli sem Margrét lét falla eftir að hún var dæmd í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hóta Semu Erlu Serdar lífláti. Sema er stofn­andi Solar­is, hjálp­ar­sam­taka fyr­ir hæl­is­leit­end­ur og flótta­fólk á Íslandi.

Eftir að Margrét var sakfelld birti hún Facebook-færslu þar sem hún gagnrýndi dóm héraðsdóms harðlega og fór ófögrum orðum um Barböru. Margrét hefur síðan eytt færslunni af síðunni sinni. 

„Ég var miður mín þegar ég skrifaði þetta. Hún framdi á mér réttarmorð, það er alveg ljóst. Hún kallar ekki inn lykilvitni sem reynast mér vel,“ segir Margrét um málaferlanna í máli hennar og Semu og segir Barböru hafa meðal annars logið upp á vitni að það hafi ekki viljað mæta. Margrét segir að umrætt vitni hafi aldrei verið boðað til skýrslutöku.

Spurð um hvað kom fram í Facebook-færslunni segir Margrét: „Ég hef vitneskju um hennar óheiðarlega líferni innan dómstólanna. Ég kallaði hana lausláta mellu og ég stend við það, það er mín skoðun og það er tjáningarfrelsi.“

Stefni í skrautlegt mál fyrir dómstólum

Margrét bendir á að ef málið fari fyrir dómstóla verði það mjög skrautlegt vegna þess að þá verði allir héraðsdómarar landsins vanhæfir að hennar mati. „Það þyrfti bara að kalla nýjan dómara frá útlöndum. Það þarf að minnsta kosti að vera einhver mjög óháður.“

Arnar Þór Jónsson var verjandi Margrétar í málinu sem Sema höfðaði en hann sagði sig síðar frá málinu. Skúli Sveinsson tók þá við málinu en hann er jafnframt lögmaður Margrétar í þessu nýja meiðyrðamáli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka