Veðurstofa Íslands hefur ákveðið að aflétta rýmingu á reitum 4 og 16 í Neskaupstað frá klukkan 16.00 í dag en það eru síðustu rýmingarreitirnir í bænum. Frá þeim tíma er öllum rýmingum aflétt í Neskaupstað.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Austurlandi.
Eins og áður hefur verið greint frá hafa þó nokkur snjóflóð fallið síðustu daga á Austurlandi og hefur verið lýst yfir óvissustigi vegna snjóflóðahættu á Austurlandi. Hættustig er í gildi í Neskaupstað, Seyðisfirði, Eskifirði, Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði.
Í kjölfar snjóflóðanna voru settar af stað rýmingar víðs vegar á Austurlandi en þeim hefur síðan verið aflétt koll af kolli á síðustu dögum.
Gul veðurviðvörun var í gildi á Austfjörðum í dag til klukkan 13.00 en ástandið á Austurlandi hefur skánað til muna síðan þá.