Guðmundur Magnússon
„Enn sem komið er hafa ekki verið teknar neinar ákvarðanir um menningarhúsin í Kópavogi,“ segir Sigríður Björg Tómasdóttir fjölmiðlafulltrúi Kópavogsbæjar um skýrslu KPMG um starfsemi húsanna sem kynnt var á fundi lista- og menningarráðs bæjarins á fimmtudag.
í skýrslunni koma fram hagræðingartillögur fyrir varðandi einstök menningarhús og er meðal annars lagt til að markmið með rekstri héraðsskjalasafns og Náttúrufræðistofu verði endurskoðað með tilliti til lögbundinna verkefna sveitarfélaga.
Hvatt er til aukinnar sjálfsafgreiðslu, styttingar afgreiðslutíma og fækkunar yfirvinnutíma hjá Bókasafni Kópavogs og lagt til að skoðaðir verði kostir og gallar þess að bjóða út rekstur Salarins.
„Kjörnir fulltrúar hafa skýrsluna nú til meðferðar og búast má við því að á næstu fundum lista- og menningarráðs og bæjarráðs verði áfram fjallað um málið,“ segir Sigríður.
Samkvæmt fundargerð lista- og menningarráðs frá því í fyrradag hafa forstöðumenn menningarhúsa bæjarins verið beðnir að skila umsögn um skýrsluna fyrir miðja næstu viku.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.