Bæjarstjóri Fjarðabyggðar segir þakklæti vera efst í huga eftir flóðin síðustu daga. Næstu skref séu að meta skemmdir, koma fólki í húsnæði og að ljúka uppbyggingu varnarmannvirkja á svæðinu. Þá verður þjónustumiðstöð almannavarna opnuð í Egilsbúð þar sem fólki verður boðin margvísleg aðstoð næstu daga.
„Áðan voru hreinsunarstörf í húsunum sem urðu fyrir flóðunum, björgunarsveitin fór í það eftir hádegið, að moka út og við vorum að fjarlægja bílana sem skemmdust. Það er töluvert af skemmdum þarna og á eftir að koma í ljós betur, þá verður hægt að meta húsin. Ég geri ráð fyrir að náttúruhamfaratrygging Íslands fari í það núna í framhaldinu,“ segir Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, í samtali við mbl.is.
Hann segist þakklátur fyrir að ekki fór verr, þakklátur fyrir samheldni íbúa og aðstoðina sem barst alls staðar að af landinu.
„Hér bakaði fólk og sendi inn handa björgunarmönnum til þess að allir gætu borðað. Þetta var bara ótrúlega flott. Svo veitingastaðurinn á Hótel Hildibrand sem að sá um matinn fyrir fjöldahjálparmiðstöðina. Menn bara lögðust á eitt um að láta þetta ganga og ganga vel,“ segir Jón Björn.
Hann segir almannavarnir mæta á svæðið á morgun og setja upp þjónustumiðstöð í Egilsbúð.
„Við ætlum að opna hérna á mánudagsmorgun þjónustumiðstöð almannavarna í Egilsbúð sem verður þjónustumiðstöð næstu daga á eftir fyrir fólk hvort sem það vill fá aðstoð í sambandi við náttúruhamfaratrygginguna eða bara sálrænan stuðning og fleira,“ segir Jón Björn. Hann hvetur fólk um leið til þess að vera óhrætt við að sækja sér sálræna aðstoð. Sérstaklega í ljósi þeirra áhrifa sem flóðin hafa á samfélagið vegna atburðanna árið 1974.
Þá sé fjölskyldusvið sveitarfélagsins að vinna að því að tryggja húsnæði fyrir þau sem eigi nú ekki afturkvæmt í húsnæði sitt vegna flóðanna. Það séu ýmis verkefni sem þurfi að ganga í á næstu dögum nú þegar hættan sé afstaðin. Það sé mikill léttir að ekki hafi farið verr.
Jón Björn segir umhverfisráðherra og forsætisráðherra væntanleg á svæðið á morgun. Rætt verði um að ljúka varnarmannvirkjum á svæðinu.
„Hönnunin er tilbúin og það er verið að ganga frá skipulaginu þannig að hann verður tilbúinn til útboðs, sá varnargarður, með haustinu og vonandi getum við bara ruðst í hann. Við sjáum það náttúrulega núna og þegar maður sér fjallið með öllum spýjunum sem hafa komið hér niður úr flóðunum, að þessi varnarmannvirki hafa skipt sköpum. Hafa gripið hverja spýjuna á fætur annarri sem að hefði valdið annars miklu meira tjóni. Þannig Norðfjörður verði öruggur áfram,“ segir Jón Björn að lokum.