Dæmi um að nýja efnið geri menn hættulega

Nýtt fíkniefni er komið í dreifingu á Íslandi en það …
Nýtt fíkniefni er komið í dreifingu á Íslandi en það getur valdið ofskynjunum og ranghugmyndum. Ljósmynd/Colourbox

„Það er alltaf varasamt þegar það eru komin einhver ný efni sem fólk þekkir ekki almennilega hvernig virka.“ Þetta segir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn um nýtt fíkniefni sem vekur upp áhyggjur hjá lögreglu.

Hann bætir við að lögreglan hafi orðið þess vör að menn verði hættulegir sjálfum sér og öðrum undir áhrifum efnisins.

Eins og greint var frá í gær hefur nýtt fíkniefni rutt sér til rúms og komist í dreifingu hér á landi á síðustu mánuðum. Efnið sem rætt er um er LSD í duftformi og hefur efnaformúluna 25B-NBOH. Efnið er örvandi og getur valdið ofskynjunum. 

Ofsjónir og ranghugmyndir

„Ég veit það ekki almennilega en fólk hefur oft fengið miklar ranghugmyndir þegar það tekur inn LSD og það er það sem við höfum líka séð á notkun á þessu efni að fólk sé að sjá ofsjónir og fá ranghugmyndir,“ segir Grímur spurður hver munurinn sé á LSD í duftformi og hefðbundnu LSD.

Grímur segir að efnið sé komið í dreifingu en að hún sé ekki jafn víðfeðm og hjá öðrum fíkniefnum á borð við kókaín. Hann bætir við að vitað sé um eitt tilvik þar sem að efnið var blandað með kókaíni.

Aukist í vinsældum frá 2020

„Við höfum séð þetta í nokkur skipti og miðað við fjölmiðla og það sem maður sér á netinu þá þekkist þetta víða,“ segir Grímur og vísar til þess að efnið verði sívinsælla erlendis.

Hann segir efnið fyrst hafa komið upp á sjónarsviðið árið 2020 og hafi síðan þá dreifst um heiminn. Hann bendir á að efnið sé mest notað á næturlífinu en segist ekki hafa upplýsingar um hversu ávanabindandi efnið er.

Grímur staðfestir í samtali við mbl.is að það megi rekja eitt dauðsfall til efnisins. Spurður hvernig dauðsfallið bar að eða hvort um of stóran skammt væri að ræða segir Grímur ekki tímabært að veita þær upplýsingar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert