„Það er sól og blíðviðri hérna og ég finn fyrir létti hérna í bænum yfir að það sé búið að aflétta en ég geri mér grein fyrir því að núna þegar þetta er búið þá upplifir fólk þetta líka aftur og á annan hátt og það er mikilvægt að þjónustumiðstöð almannavarna opni hér á morgun.“
Þetta segir Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, í samtali við mbl.is í kjölfar fundar hans með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, Guðlaugi Þór Þórðarsyni umhverfisráðherra og Víði Reynissyni, yfirlögregluþjóni almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, í Neskaupstað í dag.
Ráðherrarnir funduðu með bæjarstjórn og viðbragðsaðilum í dag til að fara yfir stöðu mála og framhaldið í kjölfar snjóflóða sem féllu í Neskaupstað á síðustu dögum. Eins og áður hefur verið greint frá hefur ríkt hættustig á Austfjörðum, nú óvissustig, en öllum rýmkunum var aflétt á svæðinu í gær.
Jón vonast til þess að sem flestir nýti sér sálrænan stuðning sem að Rauði krossinn mun veita á svæðinu á næstu dögum. „Það geta komið eftirköst eftir að hættan er liðin hjá og það getur haft mikil áhrif.“
Hann segir fundinn hafa gengið vel og að hann hafi verið mikilvægur jafnt fyrir ráðherrana, bæjarstjórn og viðbragðsaðila.
„Þau sýndu þessu mikinn skilning og eru meðvituð um þessa miklu þörf og ég vonast til þess að það verði til þess að með haustinu verði verkið um uppbyggingu varnargarðs boðið út,“ segir Jón en hann bætir við að byggingartími framkvæmda muni líklegast vera um fjögur til fimm ár.
Hann ítrekar því mikilvægi þess að bjóða verkið sem fyrst út og koma ferlinu af stað. Hann segir að þegar það sé búið sé hægt að skoða hvort mögulegt sé að flýta framkvæmdunum. Hann reiknar með að hægt verði að bjóða verkið út í haust.
Jón segir mikilvæg verkefni vera fram undan fyrir íbúa og bæjarstjórn í bænum eftir snjóflóðið og ítrekar mikilvægi hreinsunarstarfs og uppbyggingar.
„Það er heilmikið verk fram undan. Hreinsunarstarfið er í gangi núna og verktakar eru byrjaðir að rífa af gólfum og annað slíkt. Það er heilmikið eftir. Við erum að vinna að því núna að útvega því fólki sem var í húsunum sem skemmdust húsnæði og aðstoða það við að fara í gegnum þessi tryggingamál.“
Hann reiknar með því að hreinsunarstarf og annað slíkt muni koma til með að taka nokkrar vikur.
„Ég vil ítreka þetta mikla þakklæti fyrir samstöðu íbúana og alla viðbragðsaðilanna sem koma alls staðar af landinu til að vinna að þessu. Það er okkur efst í huga núna og að ekki hafi farið verr.“