Eignaspjöll, gluggagægir og innbrot

Lögreglan hafði í nógu að snúast.
Lögreglan hafði í nógu að snúast. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hin ýmsu útköll lituðu dag lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Tilkynnt var um menn sem höfðu sofnað ölvunarsvefni á sitt hvorum staðnum, árekstur og eignaspjöll. Þá barst lögreglu tilkynning um innbrot í verslun í Mosfellsbæ.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

Þar segir að framin hafi verið eignaspjöll á bifreið auk þess sem lögreglu barst tilkynning um árekstur og afstungu, þó hafi tjónvaldur gefið sig fram við lögreglu á endanum. Þá hafði maður einn sofnað ölvunarsvefni á veitingastað og annar í strætóskýli.

Tilkynnt var um mann að kíkja inn um glugga en hann var horfinn á brott þegar lögreglu bar að. Auk þess bárust lögreglu tilkynningar um tvö innbrot. Í öðru tilfellinu handtók lögregla mann sem hafði falið sig í runna í nágrenni við innbrotsstað og var hann vistaður í fangageymslu. Í hinu var brotist inn í verslun í Mosfellsbæ og er málið í rannsókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert