Hætti aldrei að leika

Birna Rún Eiríksdóttir setur ekki öll eggin sín í sömu …
Birna Rún Eiríksdóttir setur ekki öll eggin sín í sömu körfu. mbl.is/Ásdís

Birna leikur í Arfinum mínum, sem kemur í kjölfarið á Jarðarförinni minni og Brúðkaupinu mínu, og lokar þar með hringnum. Eins og margir muna fer Laddi þar á kostum í aðalhlutverkinu. En áður en við ræðum um Arfinn segir Birna frá því sem hún hefur verið að bralla undanfarin ár.

Birna er sjálf með TikTok-reikning, en hún fór fyrst að skoða TikTok fyrir alvöru fyrir nokkrum árum.

„Ég laumast með smá grín þarna inn á og svo kom mér það á óvart hvað þetta var fljótt að vaxa og ég er með tæplega ellefu þúsund fylgjendur. Ári seinna er þetta mín helsta vinna og er ástæðan fyrir því að ég er í raun orðin skemmtikraftur. Ég hef svo verið að skoða þetta form en mitt hliðaráhugamál er markaðsmál,“ segir Birna og segist í kjölfarið hafa farið í samstarf við fyrirtæki og auglýsingastofur sem vilja nýta sér TikTok.

„Markaðsstofan Kvartz hafði samband við mig og þá varð til þessi TikTok-þjónusta, þar sem fólk getur fengið ráðgjöf hjá mér,“ segir Birna og hún segir TikTok vera framtíðina.

„Heimurinn er á TikTok!“ segir Birna og segir meira en nóg að gera í þessum bransa.

Laddi er yndislegur

Um páskana kemur á skjáinn hjá Sjónvarpi símans Arfurinn minn, þriðja og síðasta serían um Benedikt, sem Laddi leikur. Birna leikur þar tengdadóttur Benedikts.

„Það er algjörlega dásamlegt að leika með Ladda. Hann er yndislegur maður frá toppi til táar. Hann er maður sem allir geta lært af,“ segir Birna og segir tökurnar hafi farið fram í desember síðastliðnum og allt gengið að óskum.

Birna leikur á móti Ævari Þór Benediktssyni í Arfinum mínum, …
Birna leikur á móti Ævari Þór Benediktssyni í Arfinum mínum, eins og hún gerði einnig í Jarðarförinni minni og Brúðkaupinu mínu. Arfurinn minnn verður sýndur um páskana í Sjónvarpi símans.

Birna heldur nú áfram að vinna að fjölbreyttum verkefnum.

„Ég er á góðri leið í átt að markmiðum mínum og hlakka til að fá leikstýra meira,“ segir Birna og segist alls ekki slá hendinni á móti góðum hlutverkum.

„Mér finnst alltaf gaman að leika og hætti því aldrei,“ segir Birna og segist ekki dreyma um frægð og frama í Hollywood.

„Mér finnst meira spennandi að gera flott skandinavískt efni; kvikmyndir og sjónvarp.“

Ítarlegra viðtal við Birnu er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. Viðtalið í heild verður í Dagmálsþætti mánudaginn 3. apríl.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert