Handtekinn eftir að stúlka fannst um borð

Maðurinn var handtekinn fyrr í dag.
Maðurinn var handtekinn fyrr í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Karlmaður á þrítugsaldri var handtekinn í dag við höfnina í Reykjanesbæ. Lögreglan í Vestmannaeyjum lét snúa við bát þar sem unglingsstúlka sem leitað hafði verið að, var um borð.

Vísir greinir frá.

Karlmaðurinn sem um ræðir er sagður eiga sér sögu um ofbeldisbrot. Málið er í höndum lögreglunnar í Vestmannaeyjum en embættið fékk aðstoð frá lögreglunni á Suðurnesjum.

Fram kemur að lögregla hafi hringt í skipstjóra bátsins og spurt hvort að stúlkan væri um borð. Maðurinn hafi þá viðurkennt að svo væri fyrir skipstjóranum og báturinn komið til hafnar í Reykjanesbæ um klukkan 15.30. Þá hafi maðurinn verið settur í handjárn og stúlkunni komið í öruggt skjól.

Í samtali við Vísi segir Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum, málið vera í rannsókn. Bátnum hafi verið snúið við eftir að ábendingar um veru stúlkunnar um borð hafi borist lögreglu. Maðurinn hafi þegar verið yfirheyrður en ekki liggi fyrir hvort farið verði fram á gæsluvarðhald. Þá tjáir hann sig ekki um það hvort að maðurinn sé grunaður um refsivert athæfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert