Ríkislögreglustjóri, lögreglustjórinn á Austurlandi og Veðurstofa Íslands hafa nú ákveðið að fara af hættustigi almannavarna og niður á óvissustig vegna snjóflóða í Neskaupstað. Óvissustiginu er haldið vegna rigninga sem von er á.
Þetta kemur fram í tilkynningu almannavarna.
Neyðarstigi almannavarna var lýst yfir á mánudag í kjölfar flóðanna. Farið var niður á hættustig þegar ljóst var að enginn væri í bráðri hættu vegna flóðsins. Rýming á síðustu svæðunum var aflétt í gær.
„Hættustigi Veðurstofunnar á þessum stöðum var í kjölfarið aflýst en í ljósi aðstæðna og rigninga sem von er á, einkum á sunnanverðum Austfjörðum hefur Veðurstofa Íslands ákveðið að halda óvissustigi sínu vegna ofanflóðahættu á Austurlandi,“ segir í tilkynningunni.