Það sem er sérstakt við hollenska dundurduflaslæðarann HNLMS Schiedam, sem er hluti af flota Atlantshafsbandalagsins sem er staddur hér á landi, er að skipið er búið til úr plasti.
Þannig getur skipið siglt innan um tundurdufl án þess að þau verði vör við það, ef svo má segja. Skipið er einnig hljóðlátt og er knúið áfram af rafmagni þegar það siglir innan um tundurdufl, þar sem duflin eru næm fyrir hljóði.
Stundum er mannlaus kafbátur sendur frá skipinu til að athuga hvort um tundurdufl er að ræða eða ekki. Sérfræðingar inni í skipinu nýta sér upplýsingar frá honum við greiningu á duflum. Stundum eru kafarar einnig sendir úr skipinu á vettvang. Þegar annars konar kafbátur er sendur af stað frá skipinu til að sprengja upp tundurdufl er skipið í nokkur hundruð metra fjarlægð.
Koen, sem annast daglegan rekstur skipsins, greindi blaðamönnum frá þessu er þeir fengu að skoða skipið í gær.
Hann sagði frá því að í Norðursjó hafi aðallega fundist tundurdufl frá síðari heimsstyrjöldinni eftir að herflugvélar losuðu sig við þau í sjóinn og telja þau tugi þúsunda á þessu svæði. Fiskiskip finna slík dufl í viku hverri.
Að sögn Johans, sem er yfirmaður á HNLMS Schiedam, er skipið lítið miðað við að það leitar að tundurduflum. Þegar mest lætur er 38 manna áhöfn um borð.
„Það þýðir að vegna þess að við erum svona nálægt hvert öðru er þetta eins og að vera innan um fjölskylduna sína. Plássið er takmarkað og við hittumst mikið á hverjum degi,“ segir Johan og bætir við að fólk kynnist því mjög vel.
Honum líkar andrúmsloftið á skipum sem þessum og segir mikilvægt að hver geti reitt sig á annan. Mórallinn þurfi því að vera góður.
Spurður hvað felst í starfi hans segir hann allt sem gerist um borð í skipinu vera á hans ábyrgð. Hann reynir að hugsa um áhöfnina eins vel og hann getur og biður hana um að sinna hinum ýmsu verkefnum.
Starfið er gefandi, að sögn Johans, sérstaklega þegar hann getur hjálpað áhöfninni að þróast áfram í starfi og þroskast sem persónur. Önnur gefandi hlið á starfinu segir hann að allir í sjóhernum, eða öllu heldur hernum öllum, leggja sitt af mörkum til að halda friði í heiminum.
„Við reynum að koma á friði með því að vera til staðar. Það er það sem við höfum gert í um 75 ár og hingað til hefur það gengið vel,“ segir hann.