Fimm gistu fangageymslur lögreglu í nótt, þar á meðal karlmaður sem sló til lögreglumanna sem reyndu að stöðva átök hans og annars manns. Var viðkomandi ekki á því að hafa sig á brott og endaði með því að hann sló til lögreglu.
Annar var vistaður vegna annarlegs ástands, en hann var með ógnandi hegðun og sparkaði meðal annars í bíl.
Þá þurfti lögregla að vísa manni út úr verslun í nótt að beiðni starfsmanns. Taldi hann sig ekki þurfa að gefa lögreglu upp nafn og kennitölu og það var ekki fyrr en hann var færður í lögreglubíl að hann varð við beiðni lögreglu og gaf upp persónuupplýsingar. Var hann í kjölfarið látinn laus.
Tilkynnt var um slagsmál fyrir utan skemmtistað í miðborginni og hafði lögreglan afskipti af einum sem sagður er hafa átt erfitt með mannleg samskipti. Engar kröfur voru þó gerðar og var einum vísað í burtu.
Lögreglan fékk einnig tilkynningu um þjófnað þar sem greiðslukorti var meðal annars stolið, en grunur er um hver var að verki þar sem þjófurinn reyndi að nota kortið í verslun.
Þá var tilkynnt um innbrot á bensínstöð, en það mál er í rannsókn.