„Það var heppni að þeir fundu mig, því þeir voru að snúa við til að láta annan hóp taka við, þegar sá sem fann mig sá spor sem hann fylgdi eftir og fann mig,“ sagði Haukur Jens Jacobsen, 14 ára gamall, við Morgunblaðið en hann lenti í villum á Hellisheiðinni í óveðri sem gerði laugardaginn fyrir páska 1983 og fermdist síðan á annan í páskum í Dómkirkjunni.
Þau voru að koma átta saman úr skála sem heitir Þrymheimar og voru á leiðinni í Hamragil. Það var ágætt veður þegar þau lögðu af stað en fljótlega gerði vitlaust veður. Haukur varð viðskila við hópinn og villtist. „Þegar ég var búinn að labba talsvert lengi var ég svo heppinn að finna gjótu milli tveggja steina, þar sem ég gat látið fyrirberast og fenna yfir mig. Þar var ég 12-13 tíma, þar til þeir fundu mig. Það var um fimmleytið á laugardagskvöldið sem ég villtist og þeir fundu mig um áttaleytið á páskadagsmorgun. Ég var ekki með neinn búnað með mér. Það var ekki um annað að ræða en finna sér skjól, veðrið var svo brjálað, blindbylur. Sem betur fer var ég þokkalega búinn, en ég þorði ekki að sofna og reyndi að hreyfa mig öðru hvoru. Þegar þeir náðu mér upp úr gjótunni, þá hné ég niður, en ég var búinn að ná mér að fullu um kvöldið og kenni mér einskis meins nú,“ sagði Haukur.
Gamla fréttin er alltaf á baksíðu Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins.