„Bankinn var stofnaður 1886 og var þá í steinhlaðna húsinu sem blasir við í Bankastrætinu og þetta varð til þess að Bankastræti fékk þetta nafn, það hét áður Bakarabrekka,“ segir Guðjón Friðriksson sagnfræðingur sem brást ljúfmannlega við þegar mbl.is falaðist eftir nokkrum orðum frá honum um sögu Landsbankahússins við Austurstræti, nú þegar þau tímamót standa fyrir dyrum að bankinn flytur úr sínu gamla vígi.
„Þetta var nú bara eitt herbergi til að byrja með held ég og opið kannski tvisvar í viku,“ segir Guðjón af fyrsta húsnæði bankans við Bankastræti. Bankinn hafi svo eflst og stækkað er nær dró aldamótum, „sérstaklega eftir að Tryggvi Gunnarsson bankastjóri tók við honum. Hann gekkst fyrir því að byggja glæsilegt hús á þessum stað í Austurstræti og þar sem hann hafði búið nokkur ár í Kaupmannahöfn fékk hann þekktan danskan arkitekt til að teikna húsið, Christian Thuren hét hann,“ heldur Guðjón áfram.
Þetta upphaflega hús hafi verið tvílyft steinhlaðin bygging í nýklassískum stíl sem Guðjón segist telja að hafi staðið tilbúin árið 1899. „Þetta var vegleg bygging en það fór nú illa fyrir henni því hún lenti í miðbæjarbrunanum 1915 og brann til kaldra kola, bara veggirnir stóðu eftir.“
Í kjölfar brunans hafi bankinn flutt tímabundið yfir götuna í þá byggingu sem síðar hýsti Reykjavíkurapótek en það hafi svo verið árið 1923 sem bygging nýs húss hafi hafist þar sem fyrra hús bankans stóð. Rifjar Guðjón upp að þá hafi nafni hans Samúelsson, húsameistari ríkisins, verið fenginn til að teikna nýtt hús.
„Hann kýs að hafa nýja húsið í sama stíl og það sem brann og notast að einhverju leyti við veggi gamla hússins. Mér skilst að einhver peningageymsla sem var í kjallara gamla bankans sé enn þá við lýði þannig að enn eru til einhverjar leifar af gamla húsinu. En húsið er lengt í báðar áttir og hækkað um eina hæð og verður þá þessi bygging sem við þekkjum núna á horninu á Austurstræti og Pósthússtræti,“ segir Guðjón.
Hann segir bankann svo hafa vaxið ört á þeim árum sem komu í kjölfar nýbyggingarinnar og að lokum hafi starfsemin teygt sig út í húsið Ingólfshvol við Hafnarstræti. „Það var nú rifið um 1970 en áður hafði það verið tengt við sjálft Landsbankahúsið. Þá var efnt til samkeppni um hönnun tengibyggingar og það var Gunnlaugur Halldórsson arkitekt sem fór með sigur af hólmi þar.“
Í aðdraganda þessarar tengingar bankans við Ingólfshvol hafi viðbótarbyggingin við austurenda aðalbyggingarinnar risið og verið umdeild frá fyrstu byrjun. „Hún er náttúrulega gjörólík, er í módernískum stíl, en hún var reyndar allt öðruvísi í upphafi, þetta var tveggja hæða viðbygging en þegar ákveðið var að rífa Ingólfshvol var þessi viðbygging hækkuð og varð í raun meira áberandi,“ segir Guðjón af viðbyggingunni umdeildu.
„Svo hefur bankinn auðvitað færst út í nálæg hús við Hafnarstræti, gamla Edinborgarhúsið var allt tekið undir bankann en í því húsi var Seðlabankinn áður en hann fékk sitt húsnæði við Arnarhól. Og nú skilst mér að ríkið ætli að taka yfir gamla húsið,“ segir Guðjón enn fremur og bendir á að Guðjón húsameistari hafi ekki aðeins teiknað sjálft hús bankans heldur hafi hann einnig teiknað innréttingar þess.
„Listamenn voru fengnir til að mála freskur á veggina í afgreiðslusalnum sem setja auðvitað gríðarlegan svip á húsnæðið, það voru Kjarval og Jón Stefánsson sem það gerðu og eiga þessa innviði. Núna er ríkið smám saman að fara úr eigin húsnæði með stofnanir sínar og í húsnæði sem einkaaðilar eiga, en þessi nýja bygging Landsbankans verður hans eign og mér finnst nú ánægjulegt að bankinn skuli vilja halda sig þarna í miðbænum,“ segir Guðjón.
„En þetta var nú bara svona lauslegt, ég hef svo sem ekki lagst í neinar stúderingar á þessu,“ segir Guðjón Friðriksson sagnfræðingur að skilnaði við lok fróðlegs spjalls um sögu hinnar rótgrónu bankabyggingar í Austurstrætinu sem brátt öðlast nýtt hlutverk. Hvert það verður er þó allt á huldu enn sem komið er, að sögn Rúnars Pálmasonar, upplýsingafulltrúa bankans.