Víkingabátnum Erninum, sem Reykjavíkurborg fékk að gjöf fyrir nær hálfri öld, verður fargað. Er hann metinn ónýtur og að mati sérfræðinga talinn hafa afar takmarkað menningarsögulegt gildi.
Örninn var notaður í nokkrum íslenskum kvikmyndum. „Með virðingu fyrir gjöfinni á sínum tíma og þeim hlutverkum sem báturinn hefur vissulega gegnt m.a. í kvikmyndasögunni er vert að skoða hvort efna mætti til viðburðar þegar bátnum verður fargað þar sem sagan verði reifuð eða hvort hægt sé að nota efniviðinn í listrænum tilgangi,“ segir í bókun meirihlutaflokkanna í menningar-, íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur á síðasta fundi. Var tillaga um förgun samþykkt með fimm atkvæðum en fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sat hjá.
Bátarnir Örn og Hrafn eru Árfjarðarteinæringar, sem er hefðbundin norsk bátsgerð. Þetta kemur fram í minnisblaði Guðbrands Benediktssonar safnstjóra Borgarsögusafns, sem lagt var fram í ráðinu við afgreiðslu málsins. Árið 1973 hafi tekið sig saman hópur áhugafólks og látið smíða tvo slíka báta í Noregi eftir myndum og öðrum upplýsingum. Bátunum var siglt til Íslands sumarið 1974. Síðan færðu Norðmenn Íslendingum bátana að gjöf.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út fimmtudaginn 30. mars.