„Hann var fríaður af öllum áburði“

Karl Gauti Hjaltason var nýverið skipaður lögreglustjóri í Vestmannaeyjum af …
Karl Gauti Hjaltason var nýverið skipaður lögreglustjóri í Vestmannaeyjum af Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra. Samsett mynd

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir að starfshópur hafi farið yfir allar umsóknir í embætti lögreglustjóra í Vestmannaeyjum og tekið viðtöl við umsækjendur. Út frá mjög ítarlegri skoðun hafi starfshópurinn þá metið hæfi hvers og eins. Hann segir hið margumtalaða Klausturmál ekki hafa haft áhrif á hæfismatið. 

Karl Gauti Hjaltason hefur verið skipaður lögreglustjóri í Vestmannaeyjum en hann var einn sex alþingismanna á umtöluðum fundi á Klaustri bar árið 2018. Siðanefnd Alþingis skilaði ráðgefandi áliti til forsætisnefndar þingsins árið 2019 um athæfi sexmenninganna.

Skoraði best í mati starfshópsins

Jón segir Karl Gauta hafa skorað best í mati starfshópsins og að hann hafi verið fríaður af öllum áburði sem þátttakandi í Klausturmálinu af siðanefnd þingsins. Þannig segir hann að það mál hafi engin áhrif haft á hæfismat vegna umsóknar Karls Gauta.

„Hann hafði ekki talað illa um neinn og engar athugasemdir voru gerðar við hans framkomu þannig að það hafði engin áhrif á þetta mat,“ segir Jón og heldur áfram.

„Svo tók ég ákveðna umsækjendur í viðtöl sérstaklega í framhaldi af því til að meta það og það er bara mjög fast fyrirkomulag hvernig unnið er úr slíkum umsóknum og síðan á ráðningin sér stað,“ segir Jón í samtali við mbl.is.

Ekki náðist á Karli Gauta við vinnslu fréttarinnar en hann sagði í textaskilaboðum til blaðamanns að hann hefði verið skipaður í embætti lögreglustjóra eftir að hafa sótt um starfið og gengið í gegnum langt og vandað umsóknarferli.

Siðanefnd fríaði Karl Gauta

Í áliti ráðgefandi siðanefndar var Karl Gauti hreinsaður, ásamt þeim Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni og Ólafi Ísleifssyni, af því að hafa með athöfnum sínum eða athafnaleysi gerst brotlegur gegn siðareglum alþingismanna.

Siðanefnd tók aðeins fyrir ummæli fjögurra þingmanna af fundinum á Klaustri bar. Karl Gauti var aðili að málinu með því að sitja at­huga­semda­laust und­ir um­mæl­um annarra þingmanna. Siðanefnd gerði ekki athugasemdir við það.

Dómsmálaráðherra segir að Karl Gauti hafi einnig sótt um embætti héraðsdómara.

„Það er nú allt önnur nefnd sem fer yfir hæfi dómara og umsóknir um dómarastörf, sem skipuð er að hluta til af Hæstarétti.

Þar var hann metinn man ég í eitt skipti jafnhæfur og aðrir sem voru taldir hæfastir. Hann var ekki skipaður þá en þannig var nú niðurstaðan í því hæfismati,“ segir dómsmálaráðherra.

Finnst okkur þetta í lagi?

Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri í Vestmannaeyjum er ein þeirra sem gagnrýnt hefur skipan Karls Gauta en ummæli féllu í garð Írisar á Klaustri bar um árið.

Hún veltir því fyrir sér hvort okkur sem sam­fé­lagi finnist í lagi að Klausturmálið, sem tröll­reið öllu á sínum tíma og lang­flest­ir voru sam­mála um að hegðun viðkomandi væri ekki í lagi, hafi eng­ar af­leiðing­ar.

Þá veltir hún fyrir sér hvort við viljum búa í þannig sam­fé­lagi að viðkom­andi ein­stak­ling­ar geti bara haldið áfram eins og ekk­ert hafi í skorist.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert